„Hjálmakerfið var bylting í öryggismálum sjómanna“

Guðmundur Freyr Guðmundsson í brúnni á Björgu EA 7 / myndir Björn Steinbekk/samherji.is
Guðmundur Freyr Guðmundsson í brúnni á Björgu EA 7 / myndir Björn Steinbekk/samherji.is

Guðmundur Freyr Guðmundsson hefur verið skipstjóri á Björgu EA 7 frá því skipið kom nýtt til landsins fyrir nærri fimm árum síðan. „Maður er bara brosandi í brælum, enda eru þetta framúrskarandi skip á allan hátt,” segir Guðmundur Freyr.

Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa létu smíða þrjú skip í Tyrklandi, sem öll eru eins. Þetta eru Kaldbakur EA 1, Björgúlfur EA 312 og Björg EA 7. Skipin eru 2.080 brúttó tonn að stærð, 63,49 metra löng og 13,54 metrar á breidd.

Björg er langbesta skipið

„Ég sótti skipið til Tyrklands á sínum tíma. Þetta hafa verið viðburðarrík ár og virkilega gefandi að taka þátt í útgerð skipsins. Belgurinn á stefninu er mjög svo áberandi og skoðanir um skrokklagið voru strax skiptar. Mörgum fannst skipið hreinlega ljótt en ég var á hinum kantinum, fannst það fallegt og skrokklagið gott. Maður vissi svo sem ekkert í upphafi við hverju mætti búast en Björg er klárlega langbesta skipið sem ég hef verið á, sjóhæfnin er gríðarleg og fer vel með mannskapinn. Þetta er sem sagt magnað skip í alla staði,” segir Guðmundur Freyr en viðtalið var tekið í lok maí á Vestfjarðamiðum.

Lítil vél en stór skrúfa

Aðalvélarnar í skipunum eru frekar litlar en á móti kemur að skrúfan er stór. Með vel úthugsuðu skrokklagi er krafturinn nægur og segir Guðmundur Freyr að líkja megi smíði skipanna við byltingu. Í þeim er andveltitankur, sem gerir það að verkum að verulega dregur úr veltingi, vinnuaðstæður eru betri og áhafnir hvílast betur á frívöktum.

„Miðað við frammistöðuna til þessa hefur skipið algjörlega staðið undir væntingum og efasemdaraddirnar um sjóhæfni eða afl aðalvélarinnar heyrast ekki lengur.“

Ferskleikinn í fyrirrúmi

Veiðar, vinnsla og sala afurða þurfa að fara saman, til þess að árangurinn verði eins og að er stefnt. Hver hlekkur í þeirri keðju er mikilvægur.

„Já, já, veiðunum er svo að segja stýrt úr landi, okkar hlutverk er að sjá vinnslunum fyrir stöðugu hráefni. Á árum áður var bara veitt og veitt og aflinn geymdur í frystigeymslum ef ekki var búið að selja afurðirnar. Núna snýst þetta allt saman um að veiðar, vinnsla og sala fari saman og ferskleikinn er í fyrirrúmi. Fiskurinn er til dæmis strax kældur niður í núll til mínus hálfa gráðu með svokallaðri ofurkælingu og þannig skilum við gæða hráefni til vinnslu í vinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyri.”

Farið að ganga á veiðiheimildir

Nýtt fiskveiðiár hefst 1. september og veiðiheimildir því langt komnar í vissum tegundum, svo sem þorski.

„Við erum aðallega að eltast við ufsa þessar vikurnar en það er hins vegar nóg af þorski, ýsu og gullkarfa hérna á miðunum. Kvótinn gerir það að verkum að þessar tegundir þarf að forðast og það getur verið snúið á köflum, enda ríkir alltaf nokkur spenna þegar trollið er dregið inn. Í síðasta holi var uppistaðan ufsi en þar áður var töluvert af þorski, sem við reynum að forðast eins og heitan eldinn. Túrinn er langt kominn og mér sýnist að við náum settu marki varðandi hlutfall ufsa í aflanum.”

Alþjóðleg samkeppni

Guðmundur Freyr hefur verið skipstjóri í aldarfjórðung, hann segir að sjómennskan hafi tekið miklum breytingum, svo og sjávarútvegurinn í heild sinni.

„Skipakosturinn hefur breyst gríðarlega, svo sem tæknin um borð og allur aðbúnaður. Kvótakerfið, hvað sem um það má segja, hefur gert það að verkum að núna er kappkostað að gera eins mikil verðmæti úr öllum aflanum og hægt er. Ekkert fer til spillis. Sjávarútvegur er alþjóðleg atvinnugrein og við keppum á mörkuðum um sölu afurða. Ef við tökum fyrirtækið sem ég starfa hjá, Samherja, eru skipin í yngri kantinum og vel búin. Vinnslurnar eru sömuleiðis afar vel útbúnar nýjustu tækni. Ég held að það sé litið upp til Samherja í þessum efnum, hversu framarlega fyrirtækið er á flestum sviðum, sem er nauðsynlegt til þess að standast harða alþjóðlega samkeppni. Íslenski fiskurinn selur sig ekki sjálfur, þótt góður sé. Allir þættir þurfa að vinna saman sem öflug og samstíga heild, eins og ég nefndi áðan.”

Hjálmakerfið bylting í öryggismálum

Guðmundur Freyr nefnir sérstaklega að öryggismál um borð hafi tekið stórstígum framförum á undanförnum árum.

„Já, heldur betur. Stofnun Slysavarnarskóla sjómanna á sínum tíma var stórt framfaraskref. Hjálmakerfið er gott dæmi um miklar framfarir í öryggismálum. Í öryggishjálmunum er fjarskiptakerfi, þannig að allir á dekki geta talað saman auk skipstjórans í brúnni. Á árum áður var skipstjórinn hrópandi í gjallarhorn eða hálfur út um gluggann og enginn gat greint skilaboðin. Núna tala menn saman með eðlilegum hætti án nokkurra truflana. Hjálmakerfið á stóran þátt í fækkun slysa, það er alveg klárt. Þannig má segja að hjálmakerfið hafi verið bylting á sínum tíma í öryggismálum. Eigendur Samherja leggja ríka áherslu á alla þætti öryggismála og hérna um borð eru þau ofarlega í hugum allra.”

Forstjórinn hringir á öllum tímum sólarhringsins

Guðmundur Freyr segir að forstjórinn, Þorsteinn Már, hafi alla tíð fylgst vel með skipum fyrirtækisins. Sömu sögu sé að segja um aðra í yfirstjórninni.

„Já, hann fylgist lygilega vel með og það á öllum tímum sólarhringsins. Þorsteinn Már spyr helst um aflabrögð og veður. Meira að segja hefur það komið fyrir að hann hafi hringt og spurt hvort víð séum ekki örugglega á landleið vegna slæmrar veðurspár. Þetta er ómetanlegt. Reyndar starfar öll yfirstjórnin náið með okkur, auk þess sem allar upplýsingar eru rafrænar,” segir Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri á Björgu EA 7 , staddur á Vestfjarðamiðum.