Hlutafjáraukning hjá Samherja fiskeldi ehf. upp á 3,5 milljarða króna og Alf-Helge Aarskog tekur sæti í stjórn

Stefnt er að framleiðslu 40 þúsund tonna af laxi á ári á Reykjanesi. Eldisgarðurinn verður við Reykj…
Stefnt er að framleiðslu 40 þúsund tonna af laxi á ári á Reykjanesi. Eldisgarðurinn verður við Reykjanesvirkjun

Hlutafé Samherja fiskeldis ehf. hefur verið aukið um 3.500 milljónir króna. Fjármagnið verður nýtt til uppbyggingar tilraunaverkefnis í Öxarfirði auk hönnunar og framkvæmda við 40 þúsund tonna eldisgarð í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun.

Þetta er fyrsti fasi hlutafjáraukningar upp á 7,5 milljarða króna sem þegar hefur verið samþykkt. Í kjölfar þessa verður ný stjórn kjörin í Samherja fiskeldi ehf. á aðalfundi félagsins. Norðmaðurinn Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi og einn af reynslumestu sérfræðingum heims á sviði fiskeldis, hefur fjárfest í Samherja fiskeldi ehf. og mun taka sæti í stjórn félagsins.

Stjórnarþátttaka Aarskog er mikil traustsyfirlýsing fyrir Samherja fiskeldi ehf. og metnaðarfull framtíðaráform félagsins um uppbyggingu á sviði landeldis. Aarskog er afar farsæll stjórnandi en nú síðast var hann forstjóri Mowi sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki veraldar og framleiðir 20 prósent af öllum laxi sem er seldur er á heimsvísu.

Mikil viðurkenning

„Það eru fáir aðilar í heiminum sem hafa meiri reynslu af fiskeldi en Alf-Helge Aarskog. Við erum að fá mann inn í stjórnina með gríðarlega þekkingu og reynslu í alþjóðlegu fiskeldi með mikið tengslanet til að færa þekkingu okkar á upp á næsta stig. Í þessu felst mikil viðurkenning á uppbyggingu okkar á landeldi undanfarna tvo áratugi,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis ehf.

Silfurstjarnan í Öxarfirði tvöfölduð

Rekstur Samherja fiskeldis kemur að öllum stigum eldis og vinnslu, allt frá hrognum til neytenda. Fyrirtækið rekur í dag fimm eldisstöðvar og tvær vinnslur. Fyrirtækið er sérhæft í landeldi á bleikju og laxi. Hingað til hefur bleikja verið meirihluti framleiðslunnar en nú stendur yfir mikil uppbygging í framleiðslu á laxi. Framkvæmdir eru hafnar við stækkun landeldis í Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Þar eru í dag framleidd 1.500 tonn af laxi en framleiðslan mun aukast í 3.000 tonn að framkvæmdunum loknum. Áætlanir gera ráð fyrir að fiskur fari í ný ker á staðnum um næstu áramót. Silfurstjarnan hefur um árabil verið einn stærsti framleiðandi í heimi á laxi sem alinn er á landi.

Fjárfest fyrir 45 milljarða á Reykjanesi

Samherji fiskeldi hefur einnig áætlanir um uppbyggingu landeldis á Reykjanesi þar sem stefnt er að framleiðslu 40.000 tonna af laxi á ársgrundvelli. Eldisgarðurinn verður staðsettur við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna. Vinna við umhverfismat og deiliskipulag vegna stöðvarinnar stendur nú yfir. Landeldisstöðin verður byggð á reynslu nýrra eininga í Silfurstjörnunni og meira en tuttugu ára þróunar og reynslu starfsmanna Samherja fiskeldis í landeldi á laxi og bleikju.

Virkilega áhugaverð áform um uppbyggingu fiskeldis á landi

„Það er heiður fyrir mig að vera boðið að taka þátt í þessu verkefni. Hæfni starfsfólks Samherja á sviði sjávarútvegs og fiskeldis á landi er frábær grunnur til að byggja á. Sú staðreynd að Samherji hefur um mjög langt skeið framleitt lax og bleikju á landi gerir það að verkum að þetta er fyrsta verkefnið sem ég hef skoðað á sviði landeldis sem ég hef raunverulega trú á. Staðsetningin sem varð fyrir valinu, þar sem er gnægð vatns og orku, gerir þetta virkilega áhugavert. Það eru afar spennandi tímar framundan hjá Samherja fiskeldi en fyrirtækið hefur metnaðarfull áform, getu til að ná þeim og verða þannig leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í landeldi á laxi. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni og hlakka til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er framundan,“ segir Alf-Helge Aarskog.

Stærsta fjárfesting í sögu Samherja

„Fjárfesting og stjórnarþátttaka Alf-Helge Aarskog er ekki aðeins fengur fyrir Samherja fiskeldi heldur einnig fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni. Aðkoma hans er auðvitað mikil traustsyfirlýsing fyrir starfsfólk Samherja. Sú uppbygging sem er hafin hjá Samherja fiskeldi markar ákveðin tímamót því um er að ræða stærsta fjárfestingarverkefni sem Samherji og tengd félög hafa ráðist í í 39 ára sögu Samherja,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.