„Hver veit nema þarna leynist starfsmenn framtíðarinnar“

Hópurinn kynnti sér starfsemi fiskvinnslu Samherja á Dalvík
Hópurinn kynnti sér starfsemi fiskvinnslu Samherja á Dalvík

Fimmtán börn og fjórir starfsmenn leikskólans Krílakots á Dalvík heimsóttu fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík og kynntu sér starfsemina.

Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir og Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri tóku á móti hópnum, sýndu húsið og sögðu frá vinnslunni. Sigurður Jörgen segir að þessi heimsókn hafi verið sérlega ánægjuleg.

Kakó og konfekt við stóra fundarborðið

„Börnin eru forvitin og hika ekki við að bera fram spurningar um allt á milli himins og jarðar. Við tökum reglulega á móti börnum á Krílakoti en eðlilega setti Covid strik í reikninginn í þeim efnum. Krakkarnir vita ýmislegt um sjávarútveg og vinnslu sjávarfangs, enda er sjávarútvegur öflug atvinnugrein í sveitarfélaginu. Að lokinni skoðunarferð var sest niður við stóra fundarborðið og drukkið kakó og að þessu sinni var konfekt á boðstólum líka. Ég er ekki frá því að í þessum glaðværa hópi leynist starfsmaður framtíðarinnar, hugsanlega starfsmenn ef út í það er farið. Þetta var ánægjuleg heimsókn, enda krakkarnir einlægir og skemmtilegir,“ segir Sigurður Jörgen yfirverkstjóri.

Samherji þakkar kærlega fyrir heimsóknina.