Íbúar Reykjanesbæjar áhugasamir um landeldi Samherja fiskeldis

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja f…
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis / myndir samherji.is

Fjölmargir sóttu opinn kynningarfund Samherja fiskeldis í Keflavík, þar sem umhverfismatsskýrsla Eldisgarðs í Auðlindagarði HS orku á Reykjanesi var kynnt, ásamt áformum um atvinnuuppbyggingu á næstu árum.

Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis segir greinilegt að heimamenn hafi ríkan áhuga á verkefninu, sem berlega hafi komið í ljós með góðri aðsókn á fundinn.

Skýrslan stórt skref

„Þetta telst vera mjög stórt verkefni á landsvísu og kostnaðurinn er áætlaður um 60 milljarðar króna, miðað við framleiðslan verði um 40 þúsund tonn af laxi á ári. Byggja þarf um 250 þúsund fermetra af húsnæði og eldiskerin verða samtals um 400 þúsund rúmmetrar. Samkvæmt okkar áætlunum verða starfsmenn Samherja fiskeldis rúmlega eitt hundrað, varlega áætlað, þannig að við erum að tala um nokkuð stóran vinnustað og auk þess sérhæfð störf. Á sjálfum framkvæmdatímanum verður auðvitað mikið umleikis á svæðinu og margir verktakar kallaðir til. Okkar undirbúningur miðast við að verklegar framkvæmdir við fyrsta áfanga geti hafist í lok sumars eða í haust og umhverfismatsskýrslan er stórt skref í öllum undirbúningnum við að afla tilskilinna leyfa.“

Heimamenn fylgjast vel með

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir ánægjulegt að umhverfismatsskýrslan sé nú komin fram, skipulagsmál slíkra framkvæmda taki tíma og öll undirbúningsvinna vandasöm.

„Þessi áform Samherja fiskeldis eru ekki aðeins stór á mælikvarða okkar hérna í Reykjanesbæ, heldur heimsins alls þegar landeldi er annars vegar. Sjálfur hef ég mikla trú á landeldi og mikil umræða á sér stað um mikilvægi hringrásarkerfis og skynsamlegrar nýtingar á orku. Samvinnan við Samherja fiskeldi hefur verið með ágætum og ég geri ráð fyrir að svo verði áfram, þetta er virkilega spennandi verkefni. Með tilkomu umhverfismatsskýrslunnar styttist í að verklegar framkvæmdir fari af stað, góður og hnitmiðaður undirbúningur er auðvitað lykillinn að því að hægt sé að ræsa vinnuvélar og hefjast handa við sjálfa uppbygginguna.“

Rúmlega 30 Reykjaneshallir

„Heilt yfir, þá heyri ég ekki annað en að íbúarnir séu ánægðir og áhugasamir. Á næstu misserum verður hægt að upplýsa okkur enn betur um alla þætti, þessi fundur er liður í nauðsynlegri kynningu og mætingin sýnir svart á hvítu að íbúarnir eru áhugasamir. Eins og fram kom í kynningunni er áætlað að byggja 250 þúsund fermetra af húsnæði. Til samanburðar er Reykjaneshöllin í Keflavík, sem er okkar stærsta íþróttamiðstöð, nærri átta þúsund fermetrar að stærð. Við erum með öðrum orðum að tala um rúmlega þrjátíu Reykjaneshallir, þannig að þetta er allt saman risa stórt. Mér fannst þessi kynningarfundur afar gagnlegur og hlakka til áframhaldandi góðs samstarfs við Samherja fiskeldi,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.