Ís á veiðislóð og örþreyttur lundi í heimsókn

Cuxhaven NC á Dohrnbanka/myndir Stefán Viðar Þórisson
Cuxhaven NC á Dohrnbanka/myndir Stefán Viðar Þórisson

Togarinn Cuxhaven NC kom til Akureyrar í morgun með liðlega 150 tonn. Megnið af aflanum fékkst á Dohrnbanka, sem er vestur af landinu. Aflinn fer til vinnslu í vinnsluhúsi ÚA á Akureyri og vinnsluhúsi Samherja á Dalvík. 

Eins og fram hefur komið í fréttum er töluvert af ís vestur af landinu, sem torveldar mjög veiðarnar.

Stefán Viðar Þórisson á Cuxhaven NC sendi okkur meðfylgjandi myndir, sem sýna glögglega stöðuna á miðunum.

Vel tekið á móti óvæntum lunda

Er Cuxhaven NC var á landleið, 70-80 sjómílur vestur af Látrabjargi, lenti lundi á skipinu og gerði sig heimakominn, enda örþreyttur eftir flug í vondu veðri. Skipverjar á Cuxhaven NC tóku að sjálfsögðu vel á móti þessum óvænta gesti, sem hresstist fljótlega eftir að hafa fengið góðgæti í gogginn.