Ívið meiri afli þrátt fyrir válynd veður

Björgúlfur EA 312 - mynd:Þorgeir Baldursson
Björgúlfur EA 312 - mynd:Þorgeir Baldursson

Þrátt fyrir válynd veður og afar óhagstæð skilyrði til veiða hafa fjögur ísfiskskip í útgerðarflota Samherja veitt meira fyrstu tvo mánuði þessa árs en þau veiddu á sama tímabili í fyrra. Skýrist aukinn afli einkum af því að meira hefur veiðst af þorski og er munurinn 876 tonn milli ára.

Um er að ræða ísfiskskipin Björgúlf EA 312, Björgu EA 7, Kaldbak EA 1 og Björgvin EA 311. Heildarafli skipanna fjögurra fyrstu tvo mánuði ársins var 4.924 tonn sem er 82 tonnum meira en samanlagður heildarafli þeirra í janúar og febrúar 2019.  

Þegar afli skipanna er sundurliðaður eftir einstökum tegundum sést að aukin veiði er einkum í þorski en alls veiddu skipin fjögur 4.012 tonn af þorski á fyrstu tveimur mánuðum ársins en höfðu veitt 3.136 tonn af þorski á sama tímabili í fyrra.

Minna hefur veiðst af flestum öðrum tegundum á þessum skipum. Lakari veiði skýrist einkum af óhagstæðu veðurfari en segja má að veiðar í vetur hafi einkennst af eilífum flótta undan veðri. Þannig hefur verið minna veitt af ýsu, ufsa, gullkarfa og djúpkarfa. Samdrátturinn mælist í hundruðum tonna en aukin veiði í þorski vegur upp á móti minni afla í þessum tegundum.

Kristján Salmannsson, skipstjóri á Björgúlfi EA 312, segist sáttur við veiðina hingað til. „Mér finnst hafa gengið nokkuð vel miðað við veður og aðstæður almennt. Veðrið hefur ekki dregið þrótt úr áhöfninni. Við erum vanir að fá á okkur brælur en þetta hefur verið óvenjulega langur illviðrakafli. Það er nánast búið að vera vont veður frá því í byrjun desember. Vont veður skýrir lakari veiði í flestum tegundum nema þorski og vegna veðurs höfum við stýrt á þau svæði þar sem hægt er að stunda veiðar á annað borð,“ segir Kristján.