Kaldbakur með fullfermi og fiskurinn kominn til Frakklands síðar í vikunni

Kaldbakur EA lagðist að Togarabryggjunni á Akureyri síðdegis í gær og hélt nokkrum klukkustundum síð…
Kaldbakur EA lagðist að Togarabryggjunni á Akureyri síðdegis í gær og hélt nokkrum klukkustundum síðar aftur á miðin

Kaldbakur EA 1, ísfisktogari Útgerðarfélags Akureyringa, kom til heimahafnar í gær með 190 tonn af góðum fiski eftir aðeins fimm daga veiðiferð. Kaldbakur hélt til veiða strax eftir að búið var að landa aflanum, sem tók um fimm klukkustundir. Fiskurinn verður kominn til erlendra viðskiptavina Samherja síðar í vikunni.

Ferskleikinn í fyrirrúmi

„Við vorum á veiðum í þrjá og hálfan sólarhring, siglingin vestur tekur sautján klukkustundir og sama tíma tekur að sigla heim. Uppistaðan er þorskur og svo ufsi, aflinn í þessum túr var að jafnaði um níu tonn í holi.  Afkastageta veiðarfæranna er mun meiri en mestu skiptir að fara sem best með aflann og koma með hann til lands eins ferskan og kostur er. Öll vinnslan um borð miðast við að hámarka gæðin.“

Áhöfnin samhent og vel sjóuð

„Já, þetta eru um 190 tonn sem þýðir fullfermi. Til þess að ná þessari tölu þarf meira að segja að geyma nokkur tonn í kælisniglunum og halda fiskinum þar undir núll gráðum, þannig að ferskleikinn haldi sér. Við vorum aðallega á Halamiðum, þar hefur veiðin verið mjög góð og líklega förum við aftur vestur þegar búið er að landa, sem tekur um fimm tíma.

Við erum þrettán um borð og auðvitað er þetta töluverð vinna þegar veiðist svona vel. En þetta eru hörku strákar og áhöfnin er samhent og vel sjóuð. Við erum með tvær áhafnir, núverandi áhöfn fer í frí eftir sjómannadaginn,“ segir Sigtryggur Gíslason skipstjóri.

Mikill hraði

Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir að afli Kaldbaks fari aðallega til vinnslu á Akureyri, hluti aflans fari þó til vinnslu á Dalvík.

„Við förum langleiðina með að vinna úr afla Kaldbaks í dag. Þetta er gæða hráefni og stærstur hlutinn fer til viðskiptavina okkar í Frakklandi, bæði með flugi og skipi. Hraðinn í vinnslunni er mikill, enda vilja kaupendur fá hráefnið sem ferskast. Fiskurinn sem fer með flugi til Frakklands verður sem sagt kominn til kaupenda síðar í vikunni. Til þess að allt þetta gangi upp þarf samhæfingu margra og gott skipulag.“

Stilla af vinnsluna vegna sjómannadagsins

„Allur flotinn verður inni á sjómannadag og við þurfum að stilla vinnsluna samkvæmt því, þar sem ekkert verður um landanir í vikunni eftir sjómannadaginn. Þess vegna landa líklega þrír togarar hjá okkur á föstudaginn, svo dæmi sé tekið. Þetta hefst allt saman og verður auðveldara þegar veiðin er svona góð, eins og verið hefur að undanförnu,“ segir Gestur Geirsson.