Kaupum Samherja fagnað

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, og Þorsteinn Már Baldvinson, forstjóri Samherja handsala ka…
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, og Þorsteinn Már Baldvinson, forstjóri Samherja handsala kaupin fyrir framan myndir af togurum ÚA.

Einhugur í bæjarstjórn

Bæjarstjórn Akureyrar fagnaði með 11 samhljóða atkvæðum kaupum Samherja á starfsemi Brims á Norðurlandi á fundi sínum þriðjudaginn 3. maí.  Þetta kemur fram í sérstakri ályktun sem samþykkt var á fundinum.

Bæjarstjórnin leggur áherslu á að með kaupunum sé ljóst að rekstur fiskvinnslu í bænum standi áfram á traustum grunni. Hið nýja félag, sem stofnað sé um reksturinn, fái nafnið Útgerðarfélag Akureyringa og lýsa bæjarfulltrúarnir þeirri von sinni að það muni bera nafn með rentu.

Í ályktuninni er einnig krafist lausnar í deilum um fiskveiðistjórnina í ljósi vandans sem fyrir liggur í atvinnu- og kjaramálum. Orðrétt segir í samþykkt bæjarstjórnar:

„Mál er að deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið ljúki með samkomulagi og málamiðlun. Úrbætur í atvinnu- og kjaramálum við núverandi aðstæður þola ekki bið.
Bæjarstjórn hvetur stjórnvöld til þess að skapa sjávarútvegnum traustan rekstrargrundvöll og öryggi til framtíðar. Það er ein af mikilvægum forsendum sóknar í atvinnumálum við Eyjafjörð og í sjávarbyggðum landið um kring.“