Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja lætur af störfum

Kristján Vilhelmsson / myndir samherji.is
Kristján Vilhelmsson / myndir samherji.is

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hf. lætur af störfum um næstu mánaðamót. Hann gerði stjórn félagsins grein fyrir ‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏þessari ákvörðun sinni fyrr í mánuðinum og í dag tilkynnti hann sínu nánasta samstarfsfólki um væntanleg starfslok.

Upphaf starfsferilsins má rekja til ársins 1983, ‏‏þegar bræðurnir Kristján og Þorsteinn Vilhelmssynir og frændi þeirra Þorsteinn Már Baldvinsson keyptu nær allt hlutafé í Samherja hf. í Grindavík, sem hafði gert út togarann Guðstein GK 140 og fluttu þeir starfsemina norður til Akureyrar.

Samherji er í dag eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með rekstur í útgerð, fiskeldi og sölu sjávarafurða. Starfsmenn eru um átta hundruð. Höfuðstöðvar félagsins hafa, frá því þeir frændur keyptu Samherja hf., verið á Akureyri og meginþungi starfseminnar á Eyjafjarðarsvæðinu.

Ástríða og ekki átta til fimm vinna

Kristján hefur alla tíð haft einlægan áhuga á sjávarútvegi. Faðir hans, Vilhelm Þorsteinsson var framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa í nærri þrjátíu ár og áður skipstjóri. Kristján var aðeins fimm ára gamall þegar hann fór með föður sínum í sína fyrstu veiðiferð og fyrsta launaseðilinn fékk hann í kringum tíu ára aldurinn fyrir að hnýta spyrðubönd fyrir ÚA.

„Þetta er ekki bara átta til fimm vinna, heldur ástríða og í huganum sitja eftir góðar minningar. Vissulega hefur af og til gefið á bátinn eins og gengur og gerist en af því lærir maður. Allt hefur sinn tíma og þessi tilkynning ætti því í raun ekki að koma neinum á óvart,“ segir Kristján um væntanleg starfslok.

„Stuðningur og skilningur eiginkonunnar, Kolbrúnar Ingólfsdóttur og fjölskyldunnar allrar hefur verið ómetanlegur. Sjálfsagt hef ég á köflum verið svolítið erfiður í sambúðinni en Kolla mín hefur alltaf stutt mig vel."

Starfsfólkið er hjartað í fyrirtækinu

Kristján segir að árin 43 hjá Samherja hafi verið fljót að líða.

„Á tímamótum sem þ‏‏essum leitar hugurinn eðlilega til upphafsins. Við vorum ungir, fullir bjartsýni og sannfærðir um að hægt væri að breyta Guðsteini í gott frystiskip, sem varð raunin með frystitogaranum Akureyrinni EA  10. Útgerð þess skips markaði upphaf rekstrar Samherja í núverandi mynd.

Öll þessi ár hefur framsýni og metnaður einkennt reksturinn en ekki síður traust og þétt samstarf. Vil ég þar nefna og þakka sérstaklega frænda mínum Þorsteini Má Baldvinssyni en okkar samstarf hefur alla tíð verið einstaklega gott. Hjartað í fyrirtækinu er starfsfólkið og okkar gæfa er að hafa fengið til liðs við okkur einvala lið á öllum sviðum, bæði til sjós og lands. Öll framangreind atriði hafa gefið góðan byr í seglin til uppbyggingar félagsins og velgengni.“

Nýr kafli – ný tækifæri

„Það hafa orðið kynslóðaskipti í félaginu og framtíðin er björt. Tækifærin liggja víða, til dæmis er hægt að nefna gervigreindina sem mun mögulega kollvarpa ýmsu, vonandi til betri vegar. Ég hef ágæta heilsu og næg áhugamál. Það hefur verið mjög gaman í vinnunni og viðskilnaðurinn við vinnufélagana verður líklega erfiðastur,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hf.