Landslag, umhverfislistaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur listakonu við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík, vekur jafnan verðskuldaða athygli fólks sem leggur leið sína á hafnarsvæðið.
Hvalbak er þungamiðjan
Landslag nær yfir þrjú beð við fiskvinnsluhúsið og samanstendur af þremur fjöllum, sjö steinum, kletti og sex formum sem þakin eru melgresi, sem óx upphaflega skammt frá húsinu.
Saman mynda þessi listaverk eina heild þar sem hvalbak er þungamiðjan. Hvalbak er í jöklafræði klöpp sem skriðjökull hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval.
Jafnvægi og kyrrð
Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur á löngum ferli sínum sem listakona skapað sitt eigið steinaríki og verk hennar eru víða um land, auk safna í ýmsum löndum vestan og austan hafs. Hún vinnur mikið með sandsteypt gler sem lýtur sömu lögmálum og hraunrennsli. Verk hennar eru oftast lífrænir skúlptúrar, sem bera sterk einkenni höfundar.
Brynhildur leitar gjarnan til japanskrar garðmenningar við sköpun útilistaverka sinna en þar er lögð áhersla á að jafnvægi og kyrrð, þar sem grunnurinn byggir á formi þríhyrnings og píramída.
Lokið var við að setja upp verkið sumarið 2022 en fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var tekið í notkun í ágúst 2020.
Á upplýsingaskilti er verkinu gerð góð skil, bæði á íslensku og ensku. Á skiltinu er líka QR kóði sem auðveldar fólki með farsíma eða fartölvu að njóta þessa einstaka listaverks.
ATHUGIÐ: Nauðsynlegt er að fylgja reglum um umferð, enda um að ræða atvinnusvæði.
Sjá fleiri myndir: