Listaverkið Hvítserkur við fiskvinnsluna á Dalvík

Listaverkið Hvítserkur við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík.
Mynd: Guðný Sigríður Ólafsdóttir
Listaverkið Hvítserkur við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík.
Mynd: Guðný Sigríður Ólafsdóttir

Þegar sumarið lét loksins sjá sig á Norðurlandi var gengið frá uppsetningu á glæsilegu listaverki framan við hið nýja fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Listaverkið sem um ræðir heitir Hvítserkur eftir listakonuna Brynhildi Þorgeirsdóttur.

Við hönnun hússins var lögð sérstök áhersla á að aðbúnaður starfsfólks væri sem allra bestur. Hljóðvist og lýsing eru einstök í húsinu og allt aðgengi og aðstaða starfsfólks eins og best verður á kosið. Hluti af hönnuninni var að gera aðkomu að fyrirtækinu aðlaðandi fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Í upphafi hönnunarferlisins var því ákveðið að gera ráð fyrir veglegu listaverki framan við húsið. Brynhildur Þorgeirsdóttir var fengin til verksins og afraksturinn er hinn glæsilegi Hvítserkur.

 

Virtur listamaður

Brynhildur Þorgeirsdóttir (f. 1955) nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974-78 og stundaði síðan framhaldsnám við Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam og við California Collage of Arts and Crafts auk sérnáms í gleri við Orrefors í Svíþjóð og Pilchuck Glass School Í Bandaríkjunum. Eftir sex ára búsetu Í New York á árunum 1984-90, hóf Brynhildur að reka eigin vinnustofu á Íslandi, en glerhlutina vinnur hún að mestu leyti á verkstæðum erlendis.

Verk Brynhildar er að finna í öllum helstu söfnum landsins og í erlendum söfnum. Útilistaverk eru m.a. í eigu Reykjavíkurborgar, Garðabæjar, Kópavogs, Akureyrar og Alingsås í Svíþjóð. Brynhildur hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar fyrir verk sín, hefur m.a. tvívegis hlotið styrk frá The Pollock-Krasner Foundation. Nánari upplýsingar um Brynhildi og verk hennar má finna á heimasíðunni www.brynhildur.com