Löndun úr Cuxhaven hefur margvísleg jákvæð áhrif á atvinnulífið

Hátt í átta hundruð tonnum af grálúðu var landað á Akureyri úr togaranum Cuxhaven NC 100 sem er í eigu Deutsche Fischfang Union í Þýskalandi. Skipstjórinn segir að slíkri löndum fylgi veruleg umsvif, enda sé leitað til margra á meðan skipið er í landi. Cuxhaven kom til Akureyrar aðfararnótt fimmtudags og strax um morguninn var hafist handa við löndun og aðra þjónustu um borð.

Skipið hélt til veiða frá Akureyri 22. júlí, þannig að túrinn var fimmtíu sólarhringar, höfn í höfn. Aflinn var hátt í 900 tonn af grálúðu, sem gera um 770 tonn af afurðum, sem fara aðallega á Asíumarkað.
Stefán Viðar Þórisson skipstjóri segir að veiðisvæðið hafi verið norður af Dormbanka við Grænland.


Aflinn sjálfvirkt á bretti 

“Þetta nuddaðist áfram á jöfnum og góðum hraða. Fiskurinn er góður og allar aðstæður um borð eru með þeim hætti að við erum að koma með gæðaafurðir. Meðferð aflans er númer eitt hjá okkur enda kaupendur kröfuharðir. Allur aflinn fer sjálfvirkt á bretti í vinnslunni um borð og við löndun þarf einungis tvo menn á lyftara í lestinni, þannig að löndunin gekk fljótt og vel fyrir sig.”


Margir kallaðir til

Þegar svo stórt skip kemur til hafnar eftir nærri tveggja mánaða túr er viðbúið að margir séu kallaðir til.
“Já, það segir sig sjálft. Það er ekki bara löndunargengið og flutningafyrirtækin sem þurfa að vera klár svo að segja strax og við leggjumst að bryggju. Fjölmörg þjónustufyrirtæki eru að vinna um borð við ýmsar endurbætur og viðhald. Við þurfum kost í næsta túr, olíu , varahluti og svo framvegis. Virðisaukinn við svona löndun hefur klárlega áhrif á fjölmarga þætti atvinnu- og þjónustustarfsemi hérna fyrir norðan. Hafnargjöld og önnur opinber gjöld sem lögð eru sérstaklega á erlend skip eru auk þess veruleg og hærri hér en í öðrum löndum og nær því virðisaukinn til samfélagsins alls.”


Klárir í næsta túr

“Við erum klárir í næsta túr, veiðisvæðið er aftur við Grænland. Það er alltaf tilhlökkun að halda í túr en það er líka gaman að sjá Ísland rísa úr sæ á heimleiðinni. Ég tala nú ekki um þegar veðrið er gott, eins og þegar við sigldum inn Eyjafjörðinn,” segir Stefán Viðar Þórisson skipstjóri á Cuxhaven NC 100.