Markviss hráefnisstýring lykilatriði „Já, þetta getur verið stressandi“

"Lykillinn að hráefnisstýringunni er að hafa greiðan aðgang að upplýsingum frá öllum deildum," segir Þorvaldur Þóroddsson sem hefur umsjón með hráefnisstýringu ÚA og Samherja/myndir samherji.is

Hráefnisstýring er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Veiðar, vinnsla og sala ferskra afurða þurfa að fara saman til þess að ná sem bestum árangri. Landvinnslur ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík þurfa samtals 140 til 200 tonn af fiski til vinnslu á dag. Fimm togarar félaganna sjá vinnslunum fyrir hráefni, veiðarnar þarf að skipuleggja með tilliti til afkastagetu vinnsluhúsanna og eftirspurnar á mörkuðum.

Þorvaldur Þóroddsson sjávarútvegsfræðingur hefur um árabil séð um hráefnisstýringuna hjá ÚA og Samherja. Hann segir nauðsynlegt að vera í stöðugu sambandi við sem flesta, vera alltaf á tánum og kortleggja alla þætti veiða, vinnslu og sölu.

Hráefnið sem ferskast til vinnslu og útflutnings

„Til þess að fóðra vinnslurnar þurfa skipin okkar helst að landa sex til sjö sinnum í viku, sem þýðir að sum skip landa tvisvar sinnum í sömu vikunni. Hráefnið þarf að vera sem allra ferskast og þá þarf að skoða hvar er hagstæðast að landa, flutningur landleiðina er oft hagstæðari en að láta skipin sigla norður ef þau voru til dæmis að veiða fyrir vestan land. Endahnúturinn er svo að koma afurðunum sem ferskustum til kaupenda.“

Veðrið setur strik í reikninginn

„Jú jú, þegar ég er búinn að kíkja á afla næturinnar hjá flotanum, er veðurspáin venjulega næsta mál á dagskrá hjá mér og hvar flotinn heldur sig. Veðrið stjórnar ansi oft hvar flotinn veiðir hverju sinni á þessum árstíma því óvissan í veðrinu er auðvitað mun meiri yfir vetrarmánuðina, það er bara þannig.“

Hver hlekkur mikilvægur

„Þetta starf getur verið ansi stressandi á köflum, enda mikið undir. Hjá okkur starfa margir og ef við erum ekki með fisk, þá er engin vinna. Ég þarf líka að vera í góðu sambandi við söludeildirnar, vita hvað er búið að selja og hvað kaupendur vilja á næstu vikum. Þeirra óskir hafa svo áhrif á vinnsluna og veiðarnar, þannig að þetta er nokkuð margþætt. Lykillinn í þessu öllu er að hafa greiðan aðgang að sem bestum upplýsingum frá öllum deildum og þá er líklegast að allt saman gangi upp eins og stefnt var að. Hérna starfar öflugt fólk á öllum póstum sem er vel sjóað í þessum fræðum. Hver hlekkur starfseminnar er mikilvægur og ég segi hiklaust að þessi hlekkur er nokkuð sterkur og öflugur.“

Ekki níu til fimm vinna

“Það er alveg rétt, þetta er ekki níu til fimm vinna, maður er líka á vaktinni um helgar með einum eða öðrum hætti. Skipin stoppa svo að segja aldrei, það gerist í raun og veru aðeins um jól og áramót og svo á sjómannadaginn. Ef ekkert þarf að laga um borð í skipunum, er farið út eins fljótt og auðið er að lokinni löndun. Sömu sögu er að segja um flutningana, oft þarf að bregðast við með litlum fyrirvara og þá er eins gott að hafa góðan aðgang að upplýsingum sem geta hjálpað við að taka rökréttar ákvarðanir.“

Dohrnbanki ótrúlegt ævintýri

Í nóvember var veiðin almennt frekar treg og veður óhagstætt til veiða. Samherji ákvað að láta Björgvin EA reyna fyrir sér á Dohrnbanka, sem er djúpt vestur af landinu. Þar hefur ekki verið veitt í mörg ár, enda erfitt svæði á margan hátt. Skemmst er frá því að segja að aflabrögðin voru afskaplega góð og mörg skip voru send á svæðið í kjölfarið. Skipin mokveiddu stóran og góðan þorsk, sem þýddi að það var veisla í fiskvinnsluhúsunum og söludeildirnar kættust. Þetta var ótrúlegt ævintýri,“ segir Þorvaldur Þóroddsson sem hefur umsjón með hráefnisstýringu hjá ÚA og Samherja.