Nánar um greiningu útflutningsverða

Vegna fyrirspurnar um greiningu IFS Ráðgjafar á útflutningsverðum á karfa þá fylgir hún hér á eftir og fleira til nánari útskýringar.

Það hefur margoft áður komið fram að útreikningar Seðlabanka Íslands á útflutningsverði Samherja til tengdra aðila á karfa eru rangir.

Útreikningar starfsmanna Samherja á karfaverðinu voru birtir þann 24. maí sl. á heimasíðu Samherja (sjá hér). Þar er gerð grein fyrir rangfærslum og reiknivillu Seðlabanka Íslands. Þá hefur IFS Ráðgjöf skoðað sérstaklega karfaútflutning Samherja og komist að sömu niðurstöðu, þ.e. að útreikningarnir séu rangir (sjá Tölfræðigreiningu IFS Ráðgjafar á fylgiskjali nr. 24 frá Seðlabanka Íslands). Sú úttekt var birt í Viðskiptablaðinu þann 26. júní sl. Megin niðurstaðan var sem hér segir:

„ Niðurstaða greiningarinnar gefur til kynna að einingaverð Samherja séu 1,7% lægri (-0,0166) en annarra, en sá munur telst ekki tölfræðilega marktækur vegna mikillar óvissu í stuðlamatinu." 

Ennfremur segir:

 "Með öðrum orðum þá duga upplýsingar á fylgiskjali númer 24 frá Seðlabanka Íslands ekki til að styðja þá tilgátu að verð pr. kg karfa í útflutningi Samherja sé lægra en einingaverð annarra aðila.“