Öflugur kælibúnaður er lykilatriði

Vilhelm Þorsteinsson á síldarmiðunum / myndir samherji.is
Vilhelm Þorsteinsson á síldarmiðunum / myndir samherji.is

„Við erum með tæp 900 tonn af síld og siglingin af miðunum til Neskaupsstaðar er um 30 klukkustundir, enda um 400 sjómílur,“ segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Síldarmiðin eru þessa dagana 80 – 90 sjómílur vestur af Reykjanestá og segir Birkir að veiðin í þessum túr hafi verið frekar döpur. Vilhelm Þorsteinsson á miðunum

Ferskara hráefni

„Megnið af aflanum fer til manneldis, stærðin á síldinni er 290 til 300 grömm. Þetta nýja öfluga skip er einstaklega vel úbúið og kælibúnaðurinn í tönkunum gerir það að verkum að aflinn helst lengur ferskur. Við getum þess vegna verið lengur að veiðum þegar þess gerist þörf eins og í þessum túr. Góður og öflugur kælibúnaður er í raun og veru lykilatriði.“

Háhyrningar elta skipin

Um sólarhring tekur að dæla hráefninu til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd elta háhyrningar Vilhelm, rétt eins og önnur veiðiskip.

„ Já já, það er alldeilis nóg af hvölum hérna. Háhyrningarnir hafa svo sem ekki verið til mikilla vandræða, hafa ekki farið í trollið.“

Hlakkar til loðnuvertíðarinnar

Birkir segir að Vilhelm verði eitthvað áfram á síldveiðum, síðan taki við loðnuvertíð. Hann segir að mannskapurinn sé samhentur.

„Þetta eru hörku strákar, enda hundvanir. Auðvitað tekur tíma að læra á nýtt skip en þetta er allt saman að koma. Við verðum eitthvað áfram á síldinni en svo tekur loðnan við. Það er viss tilhlökkun að fara á loðnuveiðar, enda svo að segja ár og öld síðan svo miklar veiðiheimildir voru gefnar út. Til þess að vertíðin heppnist vel, þurfa ótal margir þættir að ganga upp, það er ábyggilegt,“ segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA.