Óheiðarleg vinnubrögð Ríkisútvarpsins

Þorsteinn Már Baldvinsson
Þorsteinn Már Baldvinsson

Í nýjum sjónvarpsþætti sem Samherji lét framleiða fjallar Þorsteinn Már Baldvinsson um nýfundið vinnuskjal Verðlagsstofu skiptaverðs um karfaútflutning Samherja.

Eins og greint var frá í vikunni er nú komið í leitirnar það skjal sem Ríkisútvarpið byggði umfjöllun Kastljóss á hinn 27. mars 2012. Ekki er um skýrslu að ræða, eins og ítrekað var haldið fram í þætti Kastljóss, heldur þriggja blaðsíðna óundirritað og ódagsett vinnuskjal um karfaútflutning frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Samherji hafði áður fengið staðfest skriflega frá Verðlagsstofu að engin skýrsla hafi verið samin. Þá fannst umrætt skjal ekki fyrr en nú, þrátt fyrir mikla leit.

Þorsteinn Már segir í sjónvarpsþættinum, sem Samherji lét framleiða, að sér hafi verið brugðið þegar hann skoðaði vinnuskjalið því ekkert í því styðji þær ásakanir sem settar hafi verið fram á hendur Samherja í Kastljósi. Þorsteinn Már greinir líka frá því að Samherji eigi ekki þrjú af þeim skipum sem fjallað er um í vinnuskjalinu.

Þá kom í ljós við lestur skjalsins að Ríkisútvarpið sleit upplýsingar úr því úr samhengi á mjög grófan hátt. Þar var um að ræða efnisgrein sem fjallaði um verð sem ferskur karfi var seldur á. Ríkisútvarpið birti aðeins fyrstu setninguna í efnisgreininni stytta en ekki efnisgreinina í heild sinni og gjörbreytti þannig efnislegu inntaki hennar.

„Þetta sýnir í hnotskurn þau óheiðarlegu vinnubrögð sem við höfum mátt þola af hálfu Ríkisútvarpsins síðastliðin átta ár,“ segir Þorsteinn Már í þættinum sem má nálgast hér.


Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is