Sigurbjörn Tryggvason hefur verið vélstjóri á skipum Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja svo að segja frá því hann útskrifaðist sem vélstjóri árið 1984. Lengst var hann vélstjóri á Sléttbak EA 304.
Síðustu fimm árin hefur Sigurbjörn verið vélstjóri á Björgúlfi EA 312, sem hann segir prýðilegt skip í alla staði.
Viðhald og eftirlit
„Það eru tveir vélstjórar um borð, fjórir alls þar sem tvöföld áhöfn er á skipinu. Hver veiðiferð er oftast fimm eða sex sólarhringar og algengast er að maður taki tvo túra í senn og svo frí í aðra tvo. Þetta er mjög fjölbreytt starf, daglegu störfin snúast fyrst og fremst um að sinna viðhaldi og eftirliti, greina hugsanlegar bilanir og þörf á viðhaldi eða uppfærslum. Við sjáum um vélarrúmið, búnað í vinnslunni, framleiða krapa fyrir fiskinn og ýmislegt fleira. Við getum sagt að hlutverk vélstjórans sé að sjá til þess að allir hlutir séu í lagi og virki eins og til er ætlast, þannig að það er í ýmis horn að líta alla daga. Björgúlfur er afskaplega vel búið skip, séð með augum vélstjórans,“ segir Sigurbjörn þegar hann er spurður nánar um dagleg störf vélstjórans.
Geta hleypt sérfræðingum í landi inn á kerfin
„Vöktunarkerfin í skipinu eru öflug og gera viðvart um nánast allt sem huga þarf að til að fyrirbyggja bilanir enda getur verið dýrkeypt ef eitthvað bilar í miðjum túr. Tæknileg framþróun hefur verið hröð og með aukinni tæknivæðingu er sérhæfingin orðin miklu meiri en var á árum áður. Ef upp koma bilanir erum við í flestum tilvikum vel í stakk búnir til að sinna þeim. Það geta líka hæglega komið upp tilvik sem kalla á aðstoð sérfæðinga í landi og í þeim tilfellum er hægt að eiga bein samskipti og tengja inn á kerfin með rafrænum hætti. Útgerðin hefur alla tíð kappkostað að fylgjast vel með og innleiða nýjungar, sem skilar sér hiklaust til lengri tíma litið.“
Lítil vél en nægur kraftur
Nýr Björgúlfur EA 312 kom til heimahafnar á Dalvík í júní árið 2017. Skipið var smíðað í Tyrklandi og systurskip Björgúlfs eru Björg EA 7 og Kaldbakur EA 1.
„Þessi systurskip hafa reynst vel. Þau fara vel með áhafnirnar og eru hagkvæmari í rekstri en mörg önnur fiskiskip. Skrokklagið er einstakt og stefni skipanna kljúfa öldurnar vel. Aðalvélin er frekar lítil en með stórri skrúfu. Þetta samanlagt gefur nægan kraft og vélarnar nýta eldsneytið betur. Stöðugleiki þessara skipa er verulegur, sem hefur mikið að segja fyrir áhafnirnar.“
Glatvarminn nýttur til fulls
Sigurbjörn segir að hitinn frá vélunum, glatvarminn, sé vel nýttur.
„Þróunin í nýtingu glatvarma hefur verið hröð á undanförnum árum. Ekki er langt síðan þessi orka fór beint út í andrúmsloftið en í dag er orkan að fullu nýtt. Hérna á Björgúlfi er glatvarminn nýttur til að hita upp íbúðir skipsins, neysluvatnið, olíutankana og fleira. Mikilvægt er að nýta orkuna sem best, bæði hefur olía hækkað mikið í verði á undanförnum árum og ekki síður umhverfisins vegna. Að mínu viti er Samherji framarlega í þessum efnum.“
Hvetur ungt fólk til að kynna sér vélstjórn
„Já, samskiptin við yfirstjórn fyrirtækisins hafa verið afskaplega ánægjuleg í gegnum tíðina. Þegar við vélstjórarnir leggjum til einhverjar lagfæringar er alltaf hlustað og undantekningalaust er fallist á þær. Ég hvet ungt fólk til að kynna sér nám í vélstjórn, enda hefur eftirspurn eftir vélstjórum alla tíð verið mikil og eykst líklega frekar en hitt í framtíðinni. Þetta er um margt praktískt nám og það var mín gæfa að velja þessa leið. Nú er farið að líða að starfslokum og vonandi enda ég ferilinn á þessu glæsilega skipi, þar sem valinn maður er í hverju rúmi,“ segir Sigurbjörn Tryggvason vélstjóri á Björgúlfi EA 312.