Óljósar aðdróttanir Ríkisútvarpsins

Síðastliðinn mánudag barst Samherja fyrirspurn frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar „um starfsemi og umsvif Samherja á Kýpur“ í þættinum Kveik. Með fylgdi örstutt lýsing á efnistökunum í umræddum þætti, sem til stendur að sýna í kvöld, ásamt ósk um viðtal við forstjóra Samherja og fleiri nafngreinda starfsmenn. Í ljósi þess hvernig Ríkisútvarpið hefur fjallað um mál tengd Samherja í gegnum tíðina, þar sem farið hefur verið afar frjálslega með staðreyndir, upplýsingar slitnar úr samhengi eða beinlínis verið farið með rangt mál gegn betri vitund, var útilokað fyrir Samherja að verða við ósk um viðtal.

Efnistök þáttarins tengjast að öllum líkindum þeirri fyrirsát sem fréttamenn Ríkisútvarpsins reyndu nýlega á Kýpur. Það sýnir í hnotskurn forgangsröðunina hjá Ríkisútvarpinu að Helgi Seljan var sendur ásamt tökumanni til Kýpur í miðjum heimsfaraldri, þar sem útgöngubann ríkir og öll þjónusta liggur niðri, í þeim tilgangi að leggja á ný til atlögu gegn Samherja. Það virðist lítil eða engin ritstjórn vera á fréttastofu RÚV enda er fréttastofan orðinn einhvers konar baráttuvettvangur fárra fréttmanna með þráhyggju sem ítrekað hafa orðið uppvísir að óheiðarleika og ámælisverðri óvandvirkni í starfi sínu.

Í fyrirspurninni sem barst var engri spurningu beint að Samherja. Þar voru hins vegar settar fram óljósar aðdróttanir ásamt ósk um viðtal. Af fyrirspurninni má ráða að í fyrirhugaðri umfjöllun Kveiks verði byggt á einhliða gögnum sem Samherji hefur ekki undir höndum og því ekki haft tækifæri til að bregðast við.

Ómögulegt að verða við ósk um viðtal

Samherji svaraði fyrirspurninni í dag og var svar félagsins eftirfarandi:

„Í ljósi þess hvernig þið hafið fjallað um málefni tengd Samherja í gegnum tíðina, þar sem farið hefur verið afar frjálslega með staðreyndir, upplýsingar slitnar úr samhengi eða beinlínis verið farið með rangt mál gegn betri vitund, er útilokað fyrir Samherja, eða starfsmenn og verktaka fyrirtækisins, að verða við ósk ykkar um viðtal. Starfsmenn Samherja geta ekki með nokkru móti treyst því að í slíku viðtali verði ekki upplýsingar slitnar úr samhengi eða aðeins það efni birt sem þjónar þeim málstað sem þið reynið að tefla fram.

Í fyrirspurn ykkar er engum spurningum beint að Samherja en af efni hennar má ráða að Kveikur sé á alvarlegum villigötum í þeim efnistökum sem þið lýsið og því hvetjum við ykkur eindregið til að fara aftur yfir heimildir og frásögn heimildarmanna til að ganga úr skugga um að þar sé rétt farið með staðreyndir.“

Endurvinnsla á gömlum fréttum

Svar Samherja við fyrirspurninni varð ekki lengra. Svo virðist sem fréttamenn Ríkisútvarpsins ætli að freista þess enn á ný að endurvinna gamlar upplýsingar um útgerðina í Namibíu í þeim tilgangi að koma höggi á Samherja.

Ríkisútvarpið hefur í tæpan áratug sett fram fjölda ásakana á hendur Samherja sem hafa allar verið hraktar, ýmist í fjölmiðlum eða fyrir dómstólum. Síðastliðinn föstudag var stofnunin enn einu sinni gerð afturreka með alvarlegar ásakanir þegar ríkissaksóknari Noregs felldi niður sakamálarannsókn sem hófst eftir umfjöllun Ríkisútvarpsins í nóvember 2019.

Ítrekaðar staðfestingar þess efnis að fréttastofan hafi farið of geyst í umfjöllun, með því að setja fram alvarlegar ásakanir á veikum grunni og án haldbærra gagna, virðist ekki skipta neinu máli fyrir þá sem halda um stjórnartaumana á fréttastofunni. Því áfram er haldið á sömu vegferð og áfram leiðréttir Samherji þær rangfærslur sem fluttar eru. Eftir stendur spurningin: Hvert er hlutverk Ríkisútvarpsins?