Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Misfarið með opinbert vald
Ágæta Katrín
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn 10. nóvember síðastliðinn var rætt við þig í tilefni af nýgengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf., en með dóminum var endir bundinn á tæplega sjö ára samfelldan málarekstur bankans gegn félaginu. Lést þú þau orð falla í viðtalinu að dómurinn væri „ekki góður fyrir Seðlabankann“ sem tapað hafi málinu „fyrst og fremst vegna formsatriða“. Sú niðurstaða eigi hins vegar að mati þínu ekki að hafa áhrif á stöðu seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi verið ásetningur að baki brotum í málarekstri Seðlabanka Íslands gagnvart Samherja hf.
Ég hef sem lögmaður gætt hagsmuna Samherja hf. í fyrrgreindum málarekstri. Ég þekki því málarekstur bankans gagnvart umbjóðanda mínum ágætlega – og sjálfsagt betur en flestir. Búandi að þeirri þekkingu komu fyrrgreind ummæli þín mér verulega á óvart.
Það ætti hver sá sem það skoðar af hlutleysi að sjá hversu alvarlegar brotalamir hafa verið á öllum málarekstri Seðlabanka Íslands á hendur Samherja hf., allt frá öndverðu. Málareksturinn snéri raunar ekki aðeins að félaginu Samherja hf., heldur jafnframt að tugum annarra félaga í samstæðu Samherja hf. og það sem verra er, nokkrum einstaklingum líka, sem sæta máttu því af tilefnislausu að vera bornir þungum sökum um refsiverð brot á lögum og kærðir til lögreglu.
Að baki öllum þessum málarekstri stóð Seðlabanki Íslands undir stjórn Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Ákvarðanir um málareksturinn voru hans – og svo sannarlega bjó að baki þeim ákvörðunum ásetningur til þeirra.
Margoft á þessum tæpu 7 árum sem málareksturinn hefur staðið hefur seðlabankastjóra verið bent á að bankinn hefði ekkert mál í höndum gagnvart Samherja hf. og rétt væri að linnti tilhæfulausum ávirðingum hans í garð félagsins og fyrirsvarsmanna þess. Hann kaus hins vegar að halda áfram, aftur og aftur, ekki einungis til íþyngingar fyrir þá sem aðgerðirnar beindust gegn, heldur líka með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenska skattborgara. Hefur forsætisráðuneytið fengið upplýsingar frá Má Guðmundssyni um hvað þessi óvissuferð bankans hefur kostað íslenska ríkið?
Í opnu bréfi sem þessu eru ekki tök á að rekja gang þessa umfangsmikla máls í neinum smáatriðum, en þótt ekki sé gert annað en að draga upp stóru myndina í því, þá blasir við hversu illa seðlabankastjóri hefur farið með vald sitt.
• 27. mars 2012 réðst Seðlabanki Íslands til atlögu við fyrirtækjasamstæðu Samherja hf. með fjóra úrskurði héraðsdóms að vopni um húsleit og haldlagningu gagna. Á þeim grundvelli lögðu ríflega 60 manns frá Seðlabanka Íslands, sérstökum saksóknara, héraðslögreglu, tollstjóra o.fl. hald á heilan vörubílsfarm af gögnum 43 fyrirtækja, auk síma, fartölva og annarra raftækja og meira en hálfa milljón rafrænna skjala, í aðgerðum sem fram fóru á mörgum stöðum og stóðu yfir í heilan dag.
• Aðgerðirnar fóru því sem næst fram í beinni útsendingu fjölmiðla, auk þess sem Seðlabanki Íslands beindi strax við upphaf þeirra að eigin frumkvæði fréttatilkynningu um þær á íslensku og ensku um sérstaka fréttaveitu sína, til fleiri hundruð aðila, innlendra og erlendra. Ekki þarf að fara í grafgötur um þann miska sem samstæðu Samherja hf. og einstaklingum þar að baki var gerður með þessu.
• Mjög fljótlega kom í ljós að sá málatilbúnaður sem Seðlabanki Íslands hafði borið á borð héraðsdóms til öflunar fyrrgreindra úrskurða um húsleit og haldlagningu þoldi ekki nánari skoðun og strax í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 15. maí 2012, sem staðfestur var af Hæstarétti Íslands í máli nr. 356/2012, gerðu dómstólar alvarlegar athugasemdir við útreikninga Seðlabanka Íslands á fiskverði, sem legið höfðu til grundvallar fyrrgreindum húsleitar- og haldlagningaraðgerðum bankans.
• Þrátt fyrir aðfinnslur dómstóla, lét Seðlabanki Íslands sér ekki segjast eða staldraði við, en kærði í tvígang til embættis sérstaks saksóknara á þessum grundvelli; fyrst Samherja hf. og tengd félög og síðar 4 fyrirsvarsmenn félaganna. Það gerði bankinn eftir þrotlausar rannsóknir um meira en heils árs skeið; fyrst í apríl 2013 og svo aftur í september 2013.
• Sérstakur saksóknari afgreiddi málatilbúnað Seðlabanka Íslands frá sér í bæði skiptin með niðurfellingu á kærum og endursendingu til bankans, síðast í byrjun september 2015. Þar var ekki einvörðungu um að ræða niðurfellingu á grundvelli formsatriða, svo sem látið hefur verið í veðri vaka í málflutningi seðlabankastjórans. Ávirðingar Seðlabanka Íslands á hendur félögum í samstæðu Samherja hf. og fyrirsvarsmanna þeirra sættu efnilegri rannsókn af hálfu sérstaks saksóknara og niðurstaða þess ágæta embættis var raunar býsna skýr í síðara endursendingarbréfi þess til Seðlabanka Íslands, þar sem m.a. kom fram að Samherji hf. hefði sýnilega gætt þess af kostgæfni að senda heim erlendan gjaldeyri sem var endurgjald félagsins vegna sölu á vöru og þjónustu.
• Áfram hélt Seðlabanki Íslands samt að vinna í málinu misserum saman, en felldi það að lokum niður að öllu öðru leyti en því, að bjóða Samherja hf. að ljúka málinu með 8.500.000 kr. stjórnvaldssekt á miðju árinu 2016. Var þá ekkert orðið eftir af upphaflegum ávirðingum bankans á hendur Samherja hf. – og hafði aðferðum við að komast að ætluðum vanskilum gjaldeyris verið breytt frá því sem verið hafði í kærum bankans til sérstaks saksóknara, eingöngu í því skyni að reyna að búa til ætluð brot á reglum bankans um skilaskyldu erlends gjaldeyris. Á það sektarboð féllst Samherji hf. ekki, enda taldi félagið engum brotum fyrir að fara.
• Seðlabanki Íslands tók í framhaldinu ákvörðun um að leggja á Samherja hf. 15.000.000 kr. stjórnvaldssekt, sem Samherji hf. fékk raunar ekki skýringar á af hverju hækkaði svo frá sektarboðinu.
• Þeirri stjórnvaldssekt fékk Samherji hf. hnekkt fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í apríl 2017.
• Enn gat Seðlabanki Íslands þó ekki látið staðar numið, heldur áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar íslands, sem staðfesti svo dóm héraðsdóms 8. nóvember sl.
Það var ánægjuefni að sjá bréf þitt til bankaráðs Seðlabanka Íslands, dags. 12. nóvember sl., þar sem þú óskar eftir greinargerð ráðsins um málið. Bitur reynsla segir mér hins vegar að það sé óvarlegt að treysta um of á viðbrögð og afgreiðslu bankaráðs Seðlabanka Íslands, svo oft sem atbeina þess og inngrips var óskað undir meðferð fyrrgreinds máls, án nokkurs árangurs. Ég vill því eindregið beina því til þín, Katrín, að kynna þér vel dóm héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem Hæstiréttur Íslands staðfesti með vísan til forsendna hans 8. nóvember sl. Í umfjöllun dómsins má glöggt sjá að það var ekki bara forminu sem var áfátt í málsmeðferð Seðlabanka Íslands, enda þótt dómurinn felldi „þegar af þessari ástæðu“ niður stjórnvaldssekt bankans á hendur Samherja hf. Þá vill ég bjóða þér að koma á fund þinn og kynna þér málið, kjósir þú svo – nú og að hitta þá einstaklinga sem ranglega voru sökum bornir af hálfu Seðlabanka Íslands. Ég yrði ekkert sérstaklega hissa ef viðhorf þitt til málsins yrði eitthvað breytt eftir slíkt samtal.
Lögum samkvæmt er mikið vald falið seðlabankastjóra. Það vald misfór Már Guðmundsson svo sannarlega með við meðferð fyrrgreinds máls. Sá sem misfer svo með opinbert vald á ekki að fá að halda því.
Garðar G. Gíslason, hæstaréttarlögmaður