Öryggismálin eru og verða alltaf á dagskrá

“Já, viðhorf til öryggis- og vinnuverndarmála hafa tekið miklum og jákvæðum breytingum á undanförnum árum. Hérna hjá Samherja hefur verið starfandi öryggisfulltrúi í ansi mörg ár sem segir mikið um viðhorf eigendanna til öryggis- og vinnuverndarmála og hvernig þeir hugsa um starfsfólkið sitt. Ég hef verið í þessu starfi í um fjögur ár og legg mikið upp úr því að framfylgja þeirra gildum,” segir Jóhann G. Sævarsson öryggisstjóri Samherja.

Allir heilir heim

“Það er sama hvort við erum að tala um landvinnsluna, fiskeldið eða skipin, viðhorfið hefur sannarlega breyst með tilliti til öryggis- og vinnuverndarmála. Það er einmitt þetta jákvæða viðhorf eigandanna sem og starfsfólksins sem hefur skapað þessa sterku öryggismenningu og vinnustaðaranda sem er svo eftirsóknarverður og við viljum sjá. Það er ekki sjálfgefið. Við trúum því öll að markmið okkar um engin slys sé raunhæfur kostur og það er einmitt þessi meðvitaða öryggisvitund og hegðun sem ræður því hvernig okkur hefur tekst til. Þótt mikið hafi áunnist í þessum efnum, lýkur slíku verkefni aldrei og við vitum að við getum alltaf gert aðeins betur og vinnum að því alla daga.“

Slys upprætt á flæðilínunum

Jóhann segir markmiðið að starfsfólki finnist vinnustaðurinn öruggur. Hann nefnir að skráningar slysa hafi verið bættar á undanförnum árum.

„Nú getum skoðað tölfræðina og áttað okkur betur hvaða þætti þarf að vinna með til að koma í veg fyrir slys. Ég get tekið sem dæmi að fyrir nokkrum árum var allt að helmingur slysa á flæðilínunum, starfsfólk var að skera sig í fingurna. Við leituðum víða um heim eftir hentugum forvörnum til að koma í veg fyrir þessi slys og fundum sérhannaða skurðarhanska sem gerðu það að verkum að slík slys heyra nánast sögunni til í dag.“

Allir róa í sömu átt

„Þetta starf er um margt gefandi og sem betur fer eru allir að róa í sömu áttina, bæði eigendur fyrirtækisins, stjórnendur og starfsfólkið sem er áhugasamt um þessa þætti. Ef við horfum á ávinning fyrirtækisins af öryggisstarfinu, þá er hann fyrst og fremst sá að starfsfólki okkar líði vel í vinnunni og fari ávallt heilt heim og mæti ánægt til vinnu næsta dag.“

Ekki lögga

„Nei, ég lít ekki á mig sem löggu, alls ekki. Mitt hlutverk er að vinna með góðu fólki og aðstoða, fræða og efla það um þessi mál ef ég get og hafa þannig áhrif á öryggisanda og menningu innan fyrirtækisins. Það er einmitt samstaðan og samtakamátturinn sem gildir, því saman berum við ábyrgð á öryggismálunum og einungis þannig mun okkur takast að ná markmiðum okkar og koma í veg fyrir slys. Við viljum gera gott enn betra og við sættum okkur ekki við eitt einasta slys. Öryggismálin eru og verða alltaf á dagskránni,“ segir Jóhann G. Sævarsson öryggisstjóri Samherja.