Paul Birger Torgnes tekur sæti í stjórn Samherja fiskeldis ehf.

Paul Birger Torgnes / myndir: aðsendar / Jón Steinar Sæmundsson
Paul Birger Torgnes / myndir: aðsendar / Jón Steinar Sæmundsson

Norðmaðurinn Paul Birger Torgnes var kosinn í stjórn Samherja fiskeldis ehf. á hluthafafundi 12. desember s.l.

Paul Birger hefur tekið virkan þátt í norsku fiskeldi í áratugi sem stofnandi og forstjóri Fjord Seafood sem seinna varð eitt af fyrirtækjunum sem mynduðu Mowi, stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi. Paul Birger hefur verið í stjórn samtaka norskra fiskeldisfélaga og í seinni tíð fjárfestir og stjórnarformaður í norskum fjárfestingarfélögum. Síðustu árin hefur hann verið stjórnarformaður Torghatten Aqua AS, sem er fjárfestingar- og þróunarfélag í meirihluta eigu hans og fjölskyldunnar.

Reynsla Paul Birger er víðtæk, bæði í norsku fiskeldi og ekki síður í rekstri alþjóðlegra fyrirtækja.

Hann kemur inn i stjórn félagsins í stað Alf-Helge Aarskog sem lést í lok nóvember eftir skammvinn veikindi.

„Alf-Helge Aarskog tók sæti í stjórn Samherja fiskeldis ehf. árið 2022 eftir að hafa gerst hluthafi í félaginu. Hann bjó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á alþjóðlegu fiskeldi. Með komu Alf-Helge Aarskog í stjórn Samherja fiskeldis ehf. bættist við mikilvæg þekking og stórt tengslanet. Hann tók virkan þátt í stefnumótun á uppbyggingu Samherja fiskeldis ehf. og fyrir það verðum við honum ævarandi þakklát. Fyrir hönd Samherja fiskeldis ehf. þakka ég, af hlýhug og virðingu, Alf-Helge Aarskog fyrir samfylgdina og góðan vinskap til langs tíma.

Jafnframt vil ég bjóða velkominn í stjórn félagsins Paul Birger Torgnes, sem hefur mikla þekkingu og reynslu af alþjóðlegu fiskeldi. Við hjá Samherja þekkjum vel til starfa Paul Birger eftir góð kynni, samstarf og samskipti í um tuttugu ár. Það er heiður og viðurkenning fyrir okkur að fá svo reynslumikinn mann í stjórnina, mann sem mun taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem nú stendur yfir á Reykjanesi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Samherja fiskeldis ehf.

Um uppbyggingu Samherja fiskeldis ehf. á Reykjanesi:

Nú standa yfir framkvæmdir við umfangsmikið verkefni í Auðlindagarðinum á Reykjanesi. Þar mun Samherji fiskeldi ehf. byggja eldisgarð í nálægð við Reykjanesvirkjun. Byggt verður í þremur áföngum og er áætlað að fullbyggður eldisgarður muni geta framleitt um 40.000 tonn af laxi á ári. Nýttur verður ylsjór frá virkjuninni til fiskeldis, ylsjór sem annars rynni ónýttur til sjávar. Við framleiðsluna verða einnig til verðmætar aukaafurðir eins og mjöl og lífrænn úrgangur, sem nýtast munu öðrum fyrirtækjum í sinni starfsemi. Markmið Samherja fiskeldis ehf. er að Eldisgarður verði ein hagkvæmasta og umhverfisvænasta fiskeldisstöð í heimi.