Rangfærslur um Cape Cod leiðréttar í nýjum þætti Samherja

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Samherja
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Samherja

Í nýjum þætti Samherja er fjallað um félagið Cape Cod. Í þættinum eru leiðréttar rangfærslur um félagið og tilgang þess, sem komu fram í sjónvarpsþættinum Kveik þar sem fjallað var um starfsemi Samherja í Namibíu.

Í Kveiksþætti Ríkisútvarpsins hinn 26. nóvember 2019 var fullyrt að Samherji hefði átt félagið Cape Cod, peningar frá Namibíu hafi streymt á reikninga félagsins og verið „þvegnir“ og að norski ríkisbankinn DNB hafi á endanum lokað á viðskipti Cape Cod af þeim sökum. Í þætti Samherja eru allar þessar fullyrðingar hraktar.  

Í þætti Kveiks var byggt á gögnum frá Wikileaks. Önnur gögn inni á Wikileaks skýra eignarhald Cape Cod og hvernig félagið var notað en ekkert var fjallað um þessi gögn í Kveik.

Mikið hefur verið gert úr greiðslum frá dótturfélögum Samherja á Kýpur til Cape Cod, sem og greiðslum frá Cape Cod til dótturfélaganna, en í þætti Samherja eru þessar greiðslur skýrðar. Um var að ræða lánveitingar og var eini tilgangur þeirra að tryggja að skipverjar frá Rússlandi og Úkraínu, sem störfuðu í útgerðinni í Namibíu, fengju greitt á réttum tíma.

Í þætti Samherja kemur fram að fréttamenn Kveiks hafi sleppt mikilvægum upplýsingum úr gögnum sem þeir birtu í Kveik, um ástæður þess að norski ríkisbankinn DNB lokaði á viðskipti Cape Cod. Í Kveik var gefið í skyn að ástæða lokunarinnar hefði verið möguleg brot í starfsemi Samherja í Namibíu. Raunveruleg ástæða er hins vegar allt önnur og kemur skýrt fram á skjali sem sýnt var í Kveik. Ástæðunnar var hins vegar aldrei getið í þættinum því setning úr skjalinu var aðeins birt að hluta og þannig slitin úr samhengi af fréttamönnum Kveiks.

„Ef þú lest þetta skjal sem hefur verið sýnt í Stundinni og í Kveik, þarna er um að ræða rússneska sjómenn og úkraínska. Það hófst stríð á Krímskaga og þá fer Rússland á svartan lista. Það er í raun athugasemdin sem DNB gerir. Að setja svona fram, það er tvennt sem kemur til greina. Annað hvort er það illvilji eða yfirsjón. Ég vil gefa mér það að þetta hafi verið yfirsjón,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, um vinnubrögð Kveiks.

Hægt er að horfa á þátt Samherja um Cape Cod hér.


Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is