Rangfærslur, útúrsnúningar og þöggun Seðlabanka Íslands í sex ár

Þann 27. mars næstkomandi eru sex ár liðin frá því að Seðlabanki Íslands blés til stærstu húsleitar fyrr og síðar hér á landi. Ráðist var inn á höfuðstöðvar Samherja á Akureyri og þrjá aðra staði á Akureyri og í Reykjavík og allt hirt. Eftirtekjan af málinu er engin, öllu hefur verið hnekkt en áfram heldur seðlabankastjóri þó með áfrýjun á ógildingu héraðsdóms Reykjavíkur á stjórnvaldssekt sem bankinn lagði á Samherja á haustmánuðum árið 2016. Að þurfa að sitja undir svona tilhæfulausu ásökunum seðlabankastjóra í sex ár er refsing, sem ég og aðrir starfsmenn höfum þurft að þola að ósynju. Koma hefði mátt í veg fyrir þetta allt saman ef bankinn hefði einungis virt þær meginreglur sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi: meðalhóf og andmælaréttur.

Húsleit Seðlabankans fór fram undir vökulum augum fjölmiðla og fjölmiðlafulltrúi bankans, Stefán Jóhann Stefánsson, veitti fjölmiðlum því sem næst óhindraðan aðgang að málinu og gat til um ástæður þess og grunsemdir. Forsvarsmenn Samherja fengu aftur á móti lítið að vita. Einu upplýsingarnar voru að grunur var um brot á gjaldeyrislögum en það var ekki útskýrt nánar.


Strax í kjölfar húsleitarinnar var óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Seðlabankans. Tilgangurinn var þríþættur. Að fá upplýsingar um ástæður húsleitarinnar svo unnt væri að lagfæra þau mistök sem við kynnum að hafa gert og koma þannig í veg fyrir áframhaldandi brot ef einhver væru, og loks að koma í veg fyrir óþarfa tafir á málinu enda fyrirsjáanlegt að slíkt myndi leiða til tjóns fyrir alla hlutaðeigandi. Þessari bón var ekki svarað.

Skilningsleysi og ranghugmyndir afhjúpast

Um leið og minnstu upplýsingar fengust afhjúpaðist strax að málatilbúnaður Seðlabankans var í skötulíki og andvana fæddur. Eftir því sem frekari upplýsingar hafa fengist hafa ranghugmyndir, skilningsleysi og ásetningur forsvarsmanna Seðlabankans komið betur í ljós. Á það meira skylt við reyfara heldur en raunveruleg samskipti við ríkisstofnun.

Í húsleitarkröfu Seðlabankans var því haldið fram að Samherji seldi fisk til erlendra dótturfélaga á of lágu verði. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég loksins sá að Seðlabankinn hafði reiknað einfaldan barnaskólaútreikning vitlaust. Enda komust dómstólar að þeirri sömu niðurstöðu að þetta hefði verið rangt.  Nákvæmlega hvernig það var gert vitlaust liggur ekki fyrir en í bréfi frá því í ágúst í fyrra staðfesti forstöðumaður rannsókna gjaldeyriseftirlitsins að bankinn hefur aldrei afhent Samherja útreikningana. Tregða bankann stafar eingöngu af því að vernda bankann sjálfan, þ.e. koma í veg fyrir að unnt sé að birta hina röngu útreikninga sem aðstoðarseðlabankastjóri, hagfræðidoktor með áratuga reynslu, hafði staðfest og skrifað upp á.

Það er ýmislegt annað sem bankinn hefur barist eins og ljón að halda leyndu. Má þar nefna ástæður þess að húsleitarkrafa (og í kjölfarið húsleitarheimild) Seðlabankans beindist að pólsku skipasmíðastöðinni Stocznia Gdynia. Skipasmíðastöðin varð heimsfræg vegna voðaverka sem þar áttu sér stað á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þar sem tugir manna voru drepnir í uppreisn pólska starfsmanna skipasmíðastöðvarinnar sem var upphafið að falli múrsins og setti mark sitt á sögu Póllands og alls heimsins. Við einfalda leit á netinu má finna fjölmargar upplýsingar um uppreisnina. Ennfremur kemur fljótt í ljós að skipasmíðastöðin er í meirihlutaeigu pólska ríkisins og var sett í slitameðferð fjórum mánuðum eftir að gjaldeyrishöft voru sett á á Íslandi. Af hvaða ástæðum krafan beindist að skipasmíðastöðinni, eða hvaða ábyrgð Samherji ber, er hulin ráðgáta. Hvort Seðlabankinn telji forsvarsmenn Samherja hafi stýrt slitameðferð stöðvarinnar í gegnum pólska ríkið verður ósagt. Hitt er annað að engar haldbærar skýringar hafa nokkurn tímann fengist.

Þöggun beitt til verndar orðspori bankans

 

Í gegnum árin hef ég ítrekað við forsvarsmenn Seðlabankans, bæði seðlabankastjóra og bankaráð, vilja stjórnenda Samherja til að ræða málið. Í janúar 2017 var sent formlegt erindi sem bankaráð fól seðlabankastjóra að svara. Hundsaði hann fyrirmæli bankaráðs og hefur erindinu aldrei verið svarað.

Hefur lítið farið fyrir leiðbeiningarskyldu bankans eða andmælarétti Samherja í málinu sem spannar orðið sex ár. Enn minna hefur farið fyrir meðalhófi. Stjórnvöldum sem hafa viðlíka heimildir til að grípa inn í líf fólks og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hefur ber að sýna aðgát svo ekki sé minnst á að fylgja lögum. Að forsvarsmenn stjórnvalda fullyrði í fjölmiðlum að menn hafi framið brot eða séu heppnir að sleppa vegna lagaklúðurs er vítavert ef ekki lögbrot. Almenningur ber traust til stjórnvalda og gengur út frá því að upplýsingar sem frá þeim stafa séu réttar. Ásakanir Seðlabankans sem bankinn hefur komið á framfæri í fjölmiðlum, hvort heldur sem er með fréttatilkynningum um heim allan, viðtölum við fjölmiðla eða skipulögðum blaðamannafundum, leiða til fordæmingar samfélagsins í garð þeirra sem ásakanirnar beinast að. Már Guðmundsson, Stefán Jóhann Stefánsson og Ingibjörg Guðbjartsdóttir hafa alla tíð vitað það. Þau hafa hins vegar engu skeytt um þá refsingu sem þeir sem sökunum eru bornir hafa mátt þola. Refsingu sem þeir hafa hlotið að ósynju og fellst í þessari fordæmingu, þeim þvingunarúrræðum sem stjórnvöld hafa notað, þeim tíma sem þetta hefur tekið, kostnaði við að verja sig og svo lengi mætti telja. Þvert á móti virðist það hafa hafa verið tilgangurinn. Að berja fólk til hlýðni með því að gera fordæmi úr öðrum óháð því hvort það átti rétt á sér eða ekki.

Mun halda áfram að birta upplýsingar þar til brugðist verður við 

Sumir gætu sagt að ég væri enn að endurtaka mig. Og að vissu leyti er það rétt. Ástæða þess er réttlætiskennd mín fyrir því að svona vinnubrögð eiga ekki að vera liðin í samfélagi eins og okkar. Seðlabankinn hefur verið gerður afturreka með allar sínar ásakanir en heldur samt áfram og virðist fá að komast upp með það. Til þess hefur Seðlabankinn beitt öllum tiltækum ráðum og klækjum: rangfærslum, útúrsnúningum og síðast en ekki síst þöggun.

Vegna þessa hef ég ákveðið að fjalla frekar um málið á komandi vikum og birta nokkur bréf, sem voru send bankaráði í fyrra en bankaráð hefur ekki talið sig þurfa að svara þrátt fyrir að hafa fundað margsinnis á tímabilinu, auk annarra upplýsinga. Það sem ég mun birta tel ég sýna fram á vísvitandi rangfærslur í málflutningi bankans, ætluð brot á lögum og brotalamir í innviðum bankans sem leitt hafa til þess að bankinn hefur haldið lífi í tilhæfulausum ásökunum á hendur Samherja og tugum annarra einstaklinga og lögaðila:

1)    Niðurstöður sem ásakanir Seðlabankans um ætluð svik Samherja í sölu á karfa byggðu á voru fengnar með vafasömum aðferðum.

2)    Innbyrðis átök í bankanum hafa leitt til kvartana til umboðsmanns Alþingis á hendur formanni bankaráðs.

3)    Öllum ráðum hefur verið beitt til að koma í veg fyrir óháða og gagnsæja rannsókn á starfsháttum gjaldeyriseftirlitsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur stendur í fæturnar

Þann 5. mars síðastliðinn kvað héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm þar sem felld var úr gildi staðfesting á ákvörðun um að hefja ekki lögreglurannsókn á ætluðum röngum sakargiftum æðstu embættismanna Seðlabankans í tengslum við Aserta-málið. Í rökstuðningi dómarans kom fram að hann teldi augljósa almannahagsmuni standa til þess að handhafar rannsóknar- og ákæruvalds saki ekki menn um refsiverðan verknað gegn betri vitund. Ennfremur kom fram að ekki geti farið á milli mála að nægilegt sé til fullframningar rangra sakargifta samkvæmt hegningarlögum sé að maður komi því til leiðar að saklaus maður sé sakaður um brot jafnvel þó ekki sé ásetningur til að viðkomandi verði dæmdur fyrir refsiverðan verknað af dómstólum. Taldi dómarinn að eðli málsins samkvæmt hlyti í tilkynningu Seðlabankans sem leiddi til upphaf Aserta-málsins að felast ásökun um refsiverðan verknað í skilningi ákvæðis hegningarlaga um rangar sakargiftir. Benti hann á að tilkynningin hefði leitt til ýmissa þvingunarráðstafana og að formleg ákæra hefði verið gefin út. Óháð því hver endanlegar lyktir þessa dómsmáls verða er augljóst að orð dómarans eru vandlega valin og mikill þungi í rökstuðningi hans.

Hvað varðar mál Samherja er það orðið svo ljótt að svo virðist sem enginn hafi vilja snerta á því. Hef ég lengi barist fyrir því að fá rannsókn á starfsháttum Seðlabankans í gjaldeyrismálum en aragrúi gagna og upplýsinga liggja fyrir sem benda til alvarlegra og jafnvel refsiverðra brotalama þar á bæ. Stjórnendur Seðlabankans hafa talið sig geta þaggað þetta mál niður og vonast til þess að ég gefist upp. Það mun ég ekki gera. Þó lítið hafi orðið ágengt í þessari baráttu eygi ég enn von, sérstaklega í ljósi framangreinds dóms héraðsdóms Reykjavíkur. Er það ennfremur von mín að þessar upplýsingar sem birtar verði á næstunni muni stuðla að því að eftirlitsaðilar Seðlabankans og nýtt bankaráð, sem ber lögum samkvæmt eftirlit með starfsemi bankans, taki gjaldeyriseftirlit bankans til athugunar og tryggi að svona lagað geti aldrei aftur endurtekið sig. Trúi ég því að nýtt bankaráð, sem vænta má að verði skipað á næstunni, muni sinna sínu lögboðna hlutverki. Það er ef til vill fyrir löngu tímabært fyrir þá sem fara með málefni Seðlabankans að fylgja ráðleggingum þáverandi lögmanns bankans um að hafa frumkvæði að því að bæta mönnum það tjón sem stjórnendur Seðlabankans hafa valdið og að lágmarki að biðja allt það fólk afsökunar sem hefur mátt sitja undir röngum ásökunum

Þorsteinn Már Baldvinsson

Forstjóri Samherja