Reksturinn traustur og stórum hluta afkomu varið í áframhaldandi uppbyggingu

Samherji hf. hagnaðist um rúmlega 9 milljarða króna á síðasta ári. Rekstrarniðurstaðan er í samræmi við væntingar stjórnenda. Sem fyrr er stórum hluta afkomu Samherja varið í fjárfestingar í þágu samstæðunnar. Þær veigamestu á árinu 2019 voru í nýju fiskvinnsluhúsi á Dalvík og smíði nýrra skipa. Fjárfestingar í nýjum skipum, tækjum og búnaði endurspegla eins og áður metnað til uppbyggingar Samherja og það markmið að starfsmenn vinni við framúrskarandi aðstæður hverju sinni.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 48,9 milljörðum króna á árinu 2019 samkvæmt rekstrarreikningi. Helstu breytingar milli ára eru að rekstrartekjur af botnfiskveiðum og vinnslu jukust um 1,7 milljarða króna en tekjur af uppsjávarútgerð drógust saman um 1,2 milljarða króna. Tekjur af fiskeldi jukust um 570 milljónir króna. Hagnaður af rekstri samstæðunnar nam rúmlega 9 milljörðum króna. Ársreikningur Samherja er í evrum en framangreindar upphæðir eru umreiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2019. Samherji er áfram í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddu Samherji og starfsmenn 4,9 milljarða króna til hins opinbera á Íslandi á árinu 2019.

„Rekstur Samherja er áfram traustur. Afkoman á síðasta ári var góð og var uppgjörið í samræmi við væntingar okkar stjórnenda. Rekstrarumhverfið hefur breyst mikið frá síðasta ársuppgjöri vegna Covid-19 heimsfaraldursins en áhrifin koma ekki fram strax. Við stöndum nú frammi fyrir nýjum veruleika þar sem eftirspurnin er að færast í auknum mæli frá veitingastöðum yfir í smásölu. Okkur hefur hins vegar tekist vel að aðlaga reksturinn að þeim breytingum sem hafa orðið á eftirspurn í kjölfar faraldursins,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Hardbakur_EA_3

Hingað til hafa áhrif Covid-19 kallað á umtalsverðar breytingar á daglegri starfsemi. Óvissa er um hvaða áhrif faraldurinn mun hafa til lengri tíma en ljóst er að önnur bylgja faraldursins, sem þegar er hafin, mun hafa meiri áhrif vegna harðari aðgerða í helstu viðskiptalöndum. Samstæða Samherja er vel í stakk búin að mæta þeim áskorunum sem faraldurinn hefur í för með sér enda er bæði efnahags- og lausafjárstaða samstæðunnar sterk. Eiginfjárhlutfall var 66% í lok árs 2019 og fjármögnun tryggð til langs tíma.

Á árinu 2019 var Samherji með fimm ísfiskstogara og einn línu/netabát í rekstri á Íslandi. Nýr Harðbakur kom til landsins í lok árs og kom hann í rekstur á árinu 2020. Af eldri ísfiskskipum er Björgvin einn eftir. Huga þarf að endurnýjun hans innan tíðar enda er skipið komið til ára sinna og orðið viðhaldsfrekt.

Margrét EA var ein á uppsjávarveiðum á síðasta ári eftir að Vilhelm Þorsteinsson var afhentur nýjum eiganda í janúar 2019. Nýr Vilhelm er væntanlegur til landsins 15. janúar næstkomandi og er stefnt að því hann fari á loðnuveiðar á nýju ári. Nýr Vilhelm verður búinn til bæði nóta og flotvörpuveiða og verður burðarmesta skip íslenska uppsjávarflotans.

Dalvik_nytt_hus

„Það sem stendur upp úr frá síðasta ársuppgjöri er auðvitað opnun nýja vinnsluhússins á Dalvík. Vinnsla hófst í húsinu 14. ágúst og hefur hún gengið framar vonum. Nýja vinnsluhúsið er yfirlýsing um að Samherji hefur trú á fiskvinnslu í landi og hún er jafnframt yfirlýsing um að Samherji ætlar sér að halda uppi háu vinnslustigi á fiski á Íslandi um ókomna framtíð. Nær allur tækjabúnaður og tæknilausnir í nýju húsi eru framleiddar af íslenskum tæknifyrirtækjum og mun verða auglýsing fyrir þessi fyrirtæki á næstu árum og veita þeim samkeppnisforskot á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir Þorsteinn Már.

Þá hefur verið ráðist í ýmsar aðrar breytingar frá síðasta ársuppgjöri. Yfirgripsmikil endurskoðun á stjórnarháttum innan samstæðunnar stendur nú yfir og innan Samherja verður á næstunni kynnt innleiðing á kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu sem gilda á um öll félög innan samstæðunnar.

Ársuppgjörið var kynnt á aðalfundi Samherja sem fór fram hinn 2. október síðastliðinn. Ársreikningnum hefur verið skilað til ársreikningaskrár.

Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is  

 

Samherji_lykiltolur_2020