Ríkisútvarpið birti skýrsluna

Í framhaldi af þætti Samherja um Seðlabankamálið svokallaða og vinnubrögð Ríkisútvarpsins í því máli, hafa útvarpsstjóri og fréttastjóri Ríkisútvarpsins sent frá sér yfirlýsingu. Í henni er ekki tekið efnislega á meginfullyrðingunni í þætti Samherja, um að skýrslan sem Ríkisútvarpið byggði allan málarekstur sinn á, hafi aldrei verið til.

Hins vegar er yfirlýsingin full af stóryrðum þar sem Samherja er brigslað um annarlegar hvatir og óeðlileg vinnubrögð nú þegar fyrirtækið ber loks hönd fyrir höfuð sér eftir rangar ásakanir Ríkisútvarpsins um margra ára skeið. Félaginu er borið á brýn að byggja á „tilhæfulausum ásökunum“ rætt er um að „stórfyrirtæki leggi í persónulega herferð gegn blaðamanni með áratuga reynslu“ í þeim „eina tilgangi að skaða mannorð fréttamanns“ og að um sé að ræða „kerfisbundna atlögu gegn fréttamiðlum.”

Mikilvægt er að fram komi að við vinnslu Kastljóssþáttarins, sem var sýndur 27. mars 2012, var Samherja aldrei gefinn kostur á að bregðast við þeim upplýsingum sem þátturinn var sagður byggja á, þvert á vinnureglur Ríkisútvarpsins. Í yfirlýsingu útvarpsstjórans og fréttastjórans í dag er því haldið fram að skýrsla Verðlagsstofu skiptaverðs sé raunverulega til.

Af því tilefni skorar Samherji á Ríkisútvarpið að birta skýrsluna í heild sinni.