Ríkisútvarpið leiðréttir frétt um Samherja og biðst velvirðingar

Ríkisútvarpið hefur leiðrétt frétt um Samherja sem var flutt í seinni sjónvarpsfréttatíma RÚV hinn 13. febrúar síðastliðinn. Þá hefur Ríkisútvarpið jafnframt beðist velvirðingar á fullyrðingu sem fram kom í fréttinni.

Í fréttinni var fullyrt að Samherja hefði tekist að afla sér kvóta í Namibíu með því að múta embættismönnum og að heimamenn hafi því ekki notið þeirrar þróunaraðstoðar sem Íslendingar hefðu veitt þeim á árum áður. Þannig var fullyrt í fréttinni að starfsmenn Samherja hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi.

Samherji sendi stjórn Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóra bréf á sunnudag þar sem krafist var afsökunarbeiðni og leiðréttingar á fréttinni þar sem stjórnendur Samherja hefðu hvorki verið dæmdir né ákærðir fyrir refsiverða háttsemi og þá væri enginn starfsmaður Samherja með réttarstöðu sakbornings vegna málsins. Samherji gerði jafnframt alvarlegar athugasemdir við að við vinnslu fréttarinnar hefðu vinnureglur fréttastofu Ríkisútvarpsins verið brotnar því Samherja hefði ekki verið gefinn kostur á andsvörum áður en fréttin var flutt, eins og reglurnar geri áskilnað um þegar ásakanir um lögbrot eru annars vegar.

Ríkisútvarpið brást við strax í gær þegar leiðrétting birtist á vef RÚV. Þar segir: „Fréttastofa RÚV telur rétt að leiðrétta fullyrðingu í frétt um þróunaraðstoð og spillingu sem birtist á fimmtudag þar sem sagt var að Samherji hefði aflað sér kvóta með því að múta embættismönnum í Namibíu og vísað til umfjöllunar Kveiks. Hið rétta er að Samherji hefur verið borinn þeim sökum.“

Í leiðréttingunni kemur fram að starfsmenn Samherja hafi ekki verið ákærðir eða dæmdir og biðst fréttastofan velvirðingar á þeirri staðhæfingu sem fram kom í fréttinni. Efnislega sama leiðrétting var svo flutt í seinni sjónvarpsfréttatíma RÚV í gærkvöldi.

Það er ánægjulegt að RÚV hafi áttað sig á mistökunum og viðurkennt að flutt hafi verið frétt með fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Samherji vonar að fréttastofan dragi lærdóm af þessu máli til að fyrirbyggja að slík mistök endurtaki sig í framtíðinni.