Samgöngusamningar njóta vinsælda meðal starfsfólks

Ásta Garðarsdóttir starfar hjá ÚA, hún hjólar í vinnuna/myndir samherji.is / Sindri Swan
Ásta Garðarsdóttir starfar hjá ÚA, hún hjólar í vinnuna/myndir samherji.is / Sindri Swan

Hjólageymslur við stærstu starfsstöðvar Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa eru vel nýttar þessar vikurnar. Starfsmönnum stendur til boða að gera samgöngusamning, sem kveður á um mánaðarlegan styrk til þeirra sem nota vist- og heilsuvæna ferðamáta til og frá vinnu að jafnaði þrjá daga vikunnar. Fullur styrkur er 9.000 krónur á mánuði og er skattfrjáls.

Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja segir að þessi styrkur hafi staðið starfsmönnum til boða frá árinu 2020 og slíkum samningum hafi fjölgað jafnt og þétt, enda um að ræða jákvæðan hvata til að skilja bílinn eftir heima.

Vistvænar hjólageymslur

Hjólageymslurnar við fiskvinnsluhús Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa á Dalvík og Akureyri eru vel útbúnar á allan hátt og vistvænar. Hitinn í geymslunum kemur frá vinnsluhúsunum og afgangsorkan þannig nýtt til góðs. Í geymslunum er hægt að hlaða rafmagnshjól, enda hefur slíkum hjólum fjölgað mjög á undanförnum árum. Með góðum geymslum vilja félögin auðvelda starfsfólki að hjóla í vinnuna og stuðla um leið að umhverfisvænni samgöngum.

Jákvæðir hvatar

„Samgöngustyrkurinn stendur til boða frá byrjun mars og út október, sem sagt í átta mánuði ársins. Starfsfólkið þekkir vel þessa samninga og þeim hefur fjölgað ár frá ári, sem er mjög svo ánægjulegt. Eftir því sem hlýnar í veðri fjölgar slíkum samningum og veðrið að undanförnu hérna fyrir norðan hefur haft sitt að segja í þeim efnum. Þessi leið hefur margar jákvæðar hliðar, við vitum öll að minni umferð dregur úr svifryksmengun og þeir sem koma hjólandi eða gangandi til vinnu eru að jafnaði ánægðari. Þetta snýst sem sagt ekki einungis um peninga, hvatarnir í þessu kerfi eru margir og jákvæðir,“ segir Anna María. 

Hjólar sem oftast í vinnuna

Ásta Garðarsdóttir vinnur hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, hún hefur skrifað undir samgöngusamning.

„Já, ég hef tekið þátt í þessu frá byrjun og er mjög ánægð með þetta allt saman. Ég hjóla flesta daga til vinnu, enda frábært að hjóla, sérstaklega þegar svona vel viðrar. Ég heyri ekki annað en að ánægja sé meðal starfsfólksins og hjólum í geymslunni hefur fjölgað mikið á undanförnum vikum. Þessi samningur er bara mjög svo jákvæður.“

Samkvæmt mannauðsstefnu Samherja

Anna María segir að hjólageymsla starfsfólks á skrifstofu Samherja á Akureyri hafi verið endurbætt fyrr á þessu ári. Því miður standi ekki slíkir samningar sjómönnum til boða, þar sem reglur hins opinbera geri ekki ráð fyrir þeirra sérstöðu. Hún vonist til að fundin verði leið til að bæta úr þeim málum.

„Það er í raun sama við hvern maður talar, allir eru sammála um að þetta sé góð hvatning til fólks um að skilja bílinn eftir heima. Þátttakan er orðin nokkuð almenn og hjólageymslurnar eru fullar flesta daga vikunnar og það er frábært. Í mannauðsstefnu Samherja er lögð áhersla á heilsu og vellíðan starfsfólks, góðar hjólageymslur og samgöngustyrkirnir falla vel að þeirri stefnu. Við hvetjum starfsfólk til að nýta sér vist- og heilsuvænan samgöngumáta í ferðum til og frá vinnu, nota aðra valkosti en einkabílinn til hagsbóta fyrir umhverfi eða heilsu,“ segir Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja.