Samherja Holding veitt undanþága frá tilboðsskyldu í Eimskip

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti í dag Samherja Holding, systurfélagi Samherja, undanþágu frá tilboðsskyldu í Eimskipafélag Íslands hf. Það er niðurstaða eftirlitsins að núverandi aðstæður á fjármálamarkaði í ljósi Covid-19, bæði hér á landi og í heiminum öllum, séu með þeim hætti að skilyrði laga um verðbréfaviðskipti um sérstakar aðstæður séu uppfyllt.

Með flöggun hinn 10. mars kom fram að Samherji Holding hefði aukið hlut sinn í Eimskip um 3,05% og ætti 30,11% hlut í fyrirtækinu eftir kaupin. Félagið myndi senda öðrum hluthöfum yfirtökutilboð innan fjögurra vikna eins og áskilið væri í lögum. Hinn 20. mars óskaði Samherji Holding eftir undanþágu frá yfirtökuskyldunni vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hefðu skapast á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu Covid-19.

Fjármálaeftirlitið telur að verndarhagsmunir yfirtökureglna laga um verðbréfaviðskipti séu tryggðir og að með veitingu undanþágu frá tilboðsskyldunni sé ekki gengið á minnihlutavernd annarra hluthafa. Að endingu vekur fjármálaeftirlitið athygli á því í bréfi til Samherja Holding að samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sé Samherja Holding ekki heimilt að leggja fram yfirtökutilboð í sex mánuði frá því að félagið lýsti því yfir að það hygðist ekki gera yfirtökutilboð.

„Það eru mjög sérstakar og óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Við töldum því ekki skynsamlegt að tilboð um yfirtöku færi fram í skugga þessa umróts en við vonum að aðstæður verði heppilegri síðar. Eins og við höfum sagt áður þá hefur trú okkar á framtíð Eimskips ekkert breyst,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja Holding.