Samherji kærir ellefu starfsmenn RÚV fyrir siðanefnd

Lögmaður Samherja hefur lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum.

Kæran til siðanefndar byggir á ótvíræðri reglu í siðareglum Ríkisútvarpsins sem er svohljóðandi: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“

Öll þau tilvik sem fjallað er um í kærunni varða starfsmenn Ríkisútvarpsins sem sinna umfjöllun um fréttir, fréttatengd efni og dagskrárgerð. Í færslum þeim, sem starfsmennirnir birtu á samfélagsmiðlum og fjallað er um í kærunni, tóku þeir afstöðu í umræðu um málefni Samherja. Er þar einkum um að ræða mál vegna ásakana sem settar voru fram vegna starfseminnar í Namibíu og hið svokallaða Seðlabankamál en einnig ýmis önnur mál sem tengjast Samherja með beinum og óbeinum hætti. Má þar nefna eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi og eignarhald á hlutabréfum í Eimskip.

Ljóst má vera að með ummælum sínum hafa umræddir starfsmenn Ríkisútvarpsins gerst brotlegir við siðareglurnar. Þá virðist sem um sé að ræða samantekin ráð þar sem margar þeirra færslna, sem fjallað er um í kærunni, voru birtar á samfélagsmiðlum því sem næst samtímis. Gerir það brotin enn alvarlegri. Í kærunni er þess krafist að horft verði sérstaklega til þess að sumir fréttamannanna brjóta siðareglurnar ítrekað.

„Þarna er um margítrekuð brot að ræða hjá sumum þeirra einstaklinga sem eiga í hlut. Þá virðist hópur manna, sem starfa við fréttir og dagskrárgerð, hafa haft samantekin ráð um að skaða orðspor Samherja. Af þessu er augljóst á Samherji á engan möguleika á því að fá hlutlausa umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Kæru Samherja til siðanefndar Ríkisútvarpsins má nálgast hér. Þess skal getið að ætluð brot fréttamanna Ríkisútvarpsins, vegna skrifa á samfélagsmiðlum, hafa áður verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi. Í því sambandi má til dæmis nefna fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins. Engu að síður hefur fréttastjóri Ríkisútvarpsins leyft þessum brotum að viðgangast og hafa þau því verið látin átölulaus.

Tengill á pistil fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins

 

Frekari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is