Samherji leigir Smáey VE

Smáey VE 444 - mynd fengin af heimasíðu SVN
Smáey VE 444 - mynd fengin af heimasíðu SVN

Vegna seinkunar á afhendingu nýs Harðbaks hefur Samherji tekið togarann Smáey VE-444 á leigu næstu tvo mánuðina.

Um er um að ræða 485,6 brúttótonna skuttogara í flokki skipa undir 29 metra lengd en skipið var smíðað af Nordship skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 2007.

Samherji leigir skipið af útgerðarfélaginu Berg-Hugin en togarinn hefur heimahöfn í Vestmanaeyjum. Smáey VE-444 hét lengst af Vestmanney en fékk nýtt nafn um mitt síðasta ár þegar ný Vestmanney kom til landsins.

Minna hefur veiðst í efnahagslögsögunni í vetur en undanfarin ár og skýrist lakari veiði einkum af óhagstæðu veðurfari. Skipti þetta einnig máli þegar tekin var ákvörðun um leigu skipsins.  

„Þetta er virkilega gott skip, lipurt og skemmtilegt. Veiðar hafa gengið ágætlega. Við fórum í  fyrsta túrinn hinn 19. febrúar. Við höfum landað þrisvar sinnum og í tvö skiptanna var fullfermi,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri á Smáey VE-444. Hjörtur verður skipstjóri á nýjum Harðbak EA3 þegar skipið fer til veiða en það er sem stendur í slipp á Akureyri.