Samherji og Síldarvinnslan stofna sölufyrirtækið Sæblik

Samherji hf. og Síldarvinnslan hf. hafa stofnað hlutafélagið Sæblik og á hvort félag 50% hlut í hinu nýja félagi.

Tilgangur Sæbliks hf. er að annast sölu á öllum frosnum og söltuðum síldar-, loðnu- og kolmunnaafurðum félaganna tveggja sem að því standa. Þar er Japansmarkaður þó undanskilinn og munu Samherji og Síldarvinnslan áfram nýta þar þau viðskiptatengsl sem fyrir hendi eru, án atbeina Sæbliks hf.

Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur verið stærsti síldarsaltandi landsins undanfarin ár jafnframt því að reka umfangsmikla frystingu á uppsjávarfiski í landi. Samherji rekur m.a. annars fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA, sem á sl. fimm vikum hefur unnið um borð og landað um 2.000 tonnum af síldarflökum, að verðmæti um 250 milljónir króna.

Áætluð ársvelta hins nýja fyrirtækis er um 3 milljarðar króna. Framkvæmdastjóri Sæbliks er Björgólfur Jóhannsson, sem jafnframt er forstjóri Síldarvinnslunnar hf., sölustjóri er Einar Eyland og gæða- og framleiðslustjóri er Svanbjörn Stefánsson.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. og Síldarvinnslunni hf. mánudaginn 9. júlí 2001.
Nánari upplýsingar veita Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460 9000, og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Síldarvinnslunnar hf., í síma 470 7000