Sendikvinna Færeyja á Íslandi, Hanna í Horni, kynnti sér starfsemi fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík. Samskipti Samherja við Færeyjar hafa verið margvísleg í gegnum tíðina og fjölmargir færeyskir hópar hafa heimsótt einstaka starfsstöðvar Samherja.
Sjávarútvegur mikilvægur
Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri Samherja á Dalvík sýndi gestunum húsið, útskýrði alla vinnsluferla, tæknina og aðbúnað. Hann benti sérstaklega á að stór hluti hátæknibúnaðarins er íslenskur og þróaður í samstarfi við starfsfólk Samherja. Sigurður Jörgen á ættir sínar að rekja til Færeyja.
„Heimsóknir erlendra gesta eru nokkuð margar á ári hverju, enda hefur húsið vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Það var mjög svo ánægjulegt að sýna frændum okkar í Færeyjum starfsemina og skiptast á skoðunum. Sjávarútvegur er helsta atvinnugreinin í Færeyjum, rétt eins og greinin er burðarás atvinnulífsins hérna í Dalvíkurbyggð. Báðar þjóðirnar standa framarlega á heimsvísu í sjávarútvegi, þannig að það var um ýmislegt að ræða við gestina og sveitarstjórann í Dalvíkurbyggð,“ segir Sigurður Jörgen.
Með Hönnu í Horni var Elsba Dánjalsdóttir sendiritari. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fræddi gestina um ýmislegt í Dalvíkurbyggð að lokinni skoðunarferð um fiskvinnsluhúsið.
Fróðlegt að sjá íslenska hátæknibúnaðinn
Hanna segir að heimsóknin hafi verið einstaklega ánægjuleg og fræðandi.
„ Þetta er afar glæsilegur vinnustaður og fróðlegt að fá kynningu á öllum þessum íslenska hátæknibúnaði. Sömuleiðis fannst mér mikið til koma um allan aðbúnað starfsfólks. Ég hafði áður kynnt mér starfsemi annarra fyrirtækja í Dalvíkurbyggð og einnig fengið góða fræðslu um uppbyggingu sveitarfélagsins. Hérna í Dalvíkurbyggð starfa glæsileg fyrirtæki á sviði sjávarútvegs, sem þurfa starfsfólk með mikla sérhæfða þekkingu. Þessi heimsókn sýndi enn og aftur að við erum vina- og frændþjóðir, þetta var góður dagur í alla staði.“