Sérstakur saksóknari vísar máli Samherja frá

Samherji fagnar þeirri niðurstöðu Sérstaks saksóknara að vísa máli Seðlabanka Íslands á hendur félaginu frá. Þessi málalok eru í takt við það sem stjórnendur félagsins hafa alla tíð haldið fram og stutt gildum rökum.

Lögmaður Samherja fékk staðfestingu frá embætti Sérstaks saksóknara klukkan 11:51 í dag um að málið hefði verið sent aftur til Seðlabanka Íslands og væri nú á þeirra forræði. Jafnframt var staðfest að þessi ákvörðun embættisins hefði legið fyrir 28. ágúst sl. og að öll málsgögn væru nú aftur á forræði Seðlabanka Íslands.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja;

„Við höfum alla tíð haldið fram sakleysi okkar í þessu máli og lagt öll spil á borðið. Þau gögn hafa verið kynnt fjölmiðlum og birst opinberlega. Sú niðurstaða sérstaks saksóknara að vísa málinu frá, styður okkar málflutning og við fögnum þeirri niðurstöðu, nú þegar um eitt og hálft ár er liðið frá því að þetta mál hófst með húsleit hjá Samherja.“   

Helgi Jóhannesson lögmaður Samherja í þessu máli segir alla málsmeðferðina hafa verið hina furðulegustu. „Við höfum aldrei verið upplýstir um eitt eða neitt í þessu ferli, enginn hefur verið yfirheyrður og enginn hefur hlotið réttarstöðu grunaðs í málinu. Öll samskipti við Seðlabanka Íslands hafa einkennst af þögn af hálfu bankans í okkar garð og alvarlegum skorti á upplýsingum um málið. Á sama tíma hafa ítrekað birst fregnir um málið í fjölmiðlum, frá Seðlabanka Íslands. Steininn tók úr í hádeginu í dag þegar Seðlabanki Íslands sendi yfirlýsingu til fjölmiðla um að málið hefði enn og aftur verið sent til Sérstaks saksóknara. Þegar sú tilkynning var send var málið ekki komið til Sérstaks saksóknara.“