Sjávarútvegsfræðingar áberandi hjá Samherja

Tveir nýir stjórnendur, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri, hafa verið verið ráðnir til Samherja fiskeldis í Sandgerði. Með þessum ráðningum eru sjávarútvegsfræðingarnir sem starfa hjá Samherja samtals tuttugu og fjórir, enda leitast Samherji við að ráða til sín og hafa í sínum hópi einvalalið starfsmanna. 

Rekstrarstjóri

 

Halldór Pétur Ásbjörnsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri vinnslu Samherja í Sandgerði. Halldór Pétur lauk M.Sc. í auðlindafræðum árið 2011, sjávarútvegsfræði árið 2009 frá Háskólanum á Akureyri og fiskeldisfræðum frá Háskólanum á Hólum 2006. Hann hefur starfað sem verk- og verkefnastjóri í fiskiðjuveri Brims í Reykjavík í tíu ár. 

 

Gæðastjóri

Sunneva Ósk Þóroddsdóttir hefur verið ráðin gæðastjóri í vinnslu Samherja í Sandgerði. Sunneva Ósk er sjávarútvegs- og viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað í sjávarútvegi frá fjórtán ára aldri. Meðfram námi starfaði hún hjá Arion banka. Sunneva Ósk er Sandgerðingur, þannig að hún mun starfa í heimabyggð.

 

Einstakt nám

Nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri er fjölbreytt og krefjandi, segir á heimasíðu skólans. Sjávarútvegsfræðingar eru eftirsóttir til starfa, enda miðast námið við að nemendur takist á við fjölbreytt verkefni að námi loknu.

Segja má að námið sé einstakt í íslenskri námsflóru og veiti góðan grunn til stjórnunarstarfa jafnt í sjávarútvegi sem og öðrum greinum atvinnulífsins. 

Nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri geta einnig fengið gráðu í viðskiptafræði og bæta þá við einu ári í námi, samkvæmt heimasíðu skólans.

Samherji býður þessa nýju starfsmenn velkoma til starfa.