„Sjávarútvegurinn er alþjóðleg hátæknigrein“

Sunneva Ósk Guðmundsdóttir / myndir samherji.is
Sunneva Ósk Guðmundsdóttir / myndir samherji.is

Sunn­eva Ósk Guðmunds­dótt­ir hef­ur verið gæðastjóri land­vinnslu Sam­herja og Útgerðarfé­lags Ak­ur­eyr­inga í um tvö ár. Hún seg­ir starfið fjöl­breytt og kröf­ur viðskipa­vina séu alltaf að aukast. Í gróf­um atriðum gangi gæðastjórn­un út á að vinna sam­kvæmt ákveðnum stöðlum. Ann­ars veg­ar þeim sem fyr­ir­tækið set­ur og hins veg­ar ósk­um viðskipta­vina víða um ver­öld. Rætt er við Sunnevu í sérstöku Akureyrarblaði í Morgunblaðinu í dag.

Erum á heimsvísu

„Til að ná mark­miðum er nauðsyn­legt að fylgj­ast náið með öll­um ferl­um vinnsl­unn­ar. Einnig er ég í mikl­um skipt­um við kaup­end­ur og svo auðvitað starfs­fólkið hérna á Íslandi. All­ir þurfa að vinna sam­an,“ seg­ir Sunn­eva og held­ur áfram: „Já, kaup­end­ur eru kröfu­h­arðir og við hjá Sam­herja og ÚA  erum á heimsvísu í vinnslu afurða. Við get­um til dæm­is skorið bit­ana eins og viðskipta­vin­ir óska hverju sinni. Einnig unnið marg­ar mis­mun­andi pant­an­ir á sama tíma.“

Aukin tækni og sérhæfðari störf

Sunn­eva lærði sjáv­ar­út­vegs­fræði við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri. Hún seg­ist ekki endi­lega hafa verið með aug­un á sjáv­ar­út­vegi sem starfs­vett­vang framtíðar.

„Ég svo sem vissi ekk­ert hvað ég vildi gera að námi loknu. Sjáv­ar­út­vegs­námið er fjöl­breytt og víða er komið við, svo sem í viðskipta­fræði og raun­grein­um. Og svo er fjallað um sjáv­ar­út­veg­inn, sem er alþjóðleg há­tækni­grein með mikl­um mögu­leik­um. Lík­lega þarf að kynna grein­ina bet­ur fyr­ir ungu fólki og benda á öll þau tæki­færi sem eru fyr­ir hendi. Störf­in hafa tekið mikl­um breyt­ing­um og eru orðin ansi sér­hæfð með auk­inni tækni.“

For­ysta og stjórn­un

Í síðasta mánuði út­skrifaðist Sunn­eva úr meist­ara­námi í for­ystu og stjórn­un með áherslu á mannauðsstjórn­un frá Há­skól­an­um á Bif­röst.

„Þetta var ótrú­lega skemmti­legt nám sem mun ör­ugg­lega styrkja mig í starfi og er ég því full bjart­sýni á framtíðina. Já, ég hlakka alltaf til að fara í vinn­una og vil vaxa í mínu starfi,“ seg­ir Sunn­eva Ósk í Akureyrarblaði Morgunblaðsins.