Sjávarútvegurinn er háþróuð alþjóðleg atvinnugrein

Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja/myndir/Sindri Swan/samherji.is
Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja/myndir/Sindri Swan/samherji.is

„Það sem gefur starfinu líf og lit eru mikil og góð samskipti við fólk. Viðfangsefnin eru skemmtileg og fjölbreytt, oftar en ekki kemur eitthvað óvænt upp þannig að fyrirfram veit maður ekki hvað vinnudagurinn ber í skauti sér,“ segir Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja. Eiginmaður hennar er Friðrik Kjartansson og eiga þau tvö börn, Maríu Björk 19 ára og Kjartan Inga 15 ára. Anna María lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 1999, en því námi hefur nú verið breytt í viðskiptafræði. Viðtal við Önnu Maríu birtist í sjávarútvegsblaðinu Ægi og er það birt hér með góðfúslegu leyfi ritstjóra blaðsins. 

Anna María á að baki langan starfsferil hjá Samherja en hún var ráðin til fyrirtækisins árið 2001 og gegndi í fyrstu stöðu launafulltrúa. „Í framhaldinu var mér boðið að taka við nýju starfi starfsmannastjóra. Ég sló til og hef upp frá því verið að sinna starfsmannamálum hjá Samherja. Fyrir örfáum misserum var þetta starfsheiti nútímavætt og kallast nú mannauðsstjóri,“ segir hún.

Anna María sér meðal annars um að öll skip félagsins, átta að tölu séu mönnuð, en sjómenn á þeim eru í allt um 200 talsins. „Það þarf alltaf að vera klár áhöfn fyrir næsta túr og stundum kemur eitthvað upp og menn geta af ýmsum ástæðum ekki tekið túr, þá þarf að finna staðgengla. Þetta getur oft verið púsluspil en sem betur fer erum við með gott fólk og yfirleitt er hægur vandi að manna skipin,“ segir hún en bætir við að skipin séu á sjó allan sólarhringinn, nánast alla daga ársins. „Mannauðsstjórinn þarf þess vegna að vera alltaf til taks á öllum tímum sólarhringsins. Í landvinnslunum hins vegar sjá yfirverkstjórar að mestu um mannaráðningar.“

Fólk með margvíslega menntun að baki

„Það er mikil áhersla lögð á allar tækninýjungar, allt sem gerir vinnuumhverfið betra og auðveldar störfin. Sömu sögu er að segja um öryggismálin og er stöðugt unnið að umbótum varðandi öryggi starfsmanna. Við erum alltaf að huga að því sem betur má fara á öllum sviðum, heilbrigðis- og vinnuverndarmál eru ofarlega á baugi og sífellt verið að leita leiða til að tryggja slysalausa starfsemi,“ segir Anna María.

„Það er að mörgu að hyggja í stóru fyrirtæki, við þurfum á fólki að halda sem aflað hefur sér fjölbreyttrar menntunar og reynslu af öllu tagi,“ bætir hún við og nefnir að það séu alls ekki bara sjómenn og fiskvinnslufólk að störfum í fyrirtækinu.

„Það er mikið um að fólk hafi iðnmenntun af einhverju tagi, sem bæði tengist vélum, rafmagni og fleiru. Þá má nefna að hjá fyrirtækinu starfa t.d. vélstjórar, skipstjórnarmenn, dýralæknar, líffræðingar, fiskeldisfræðingar, verkfræðingar, sjávarútvegsfræðingar, hag- og lögfræðingar og er þá fátt eitt talið,“ segir hún um fjölbreytileika starfanna.

Mikilvægt að hafa öfluga skóla í heimabyggð

„Við höfum verið að benda ungu fólki á þau tækifæri sem eru fyrir hendi í sjávarútvegi en þeim standa ýmsar dyr opnar í þeim efnum eins og sést á því hversu fjölbreyttur bakgrunnur okkar starfsfólks er. Það eru sem dæmi mikil og spennandi tækifæri fyrir fólk, sem hefur menntað sig í tæknigreinum, að starfa við sjávarútveg. Við rekum fullkomnar fiskvinnslur og skipaflotinn hefur farið í gegnum mikla endurnýjun á undanförnum árum. Þessi misserin er mikil uppbygging í fiskeldi og Samherji er með stór áform í þeim efnum. Núna er til dæmis verið að ljúka við stækkun Silfurstjörnunnar í Öxarfirði og stór landeldisstöð er í undirbúningi á Reykjanesi. Þessi vaxandi atvinnugrein kallar á starfsfólk, oft á tíðum með umtalsverða menntun eða sérþekkingu,“ segir Anna María.

Hún bendir einnig á að konur hafi á undanförnum árum haslað sér völl innan sjávarútvegs og í vaxandi mæli gegni konur ýmsum stjórnunarstörfum hjá Samherja, þar séu allir vegir færir. Fyrirtækið fékk jafnlaunavottun í fyrsta sinn árið 2019 og segir Anna María að þar hafi mikilvægum áfanga veri náð.

Um 30 sjávarútvegsfræðingar menntaðir hjá Háskólanum á Akureyri starfa hjá Samherja við margvísleg störf og eins eru fjölmargir starfsmenn sem lokið hafa námi frá framhaldsskólum bæjarins. „Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki eins og Samherja að hafa þessa öflugu skóla í bænum og til að mynda hafa margir sem lært hafa vélstjórn eða aðra iðn hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri komið til starfa hjá okkur.“

Sjávarútvegurinn spennandi alþjóðleg atvinnugrein

Anna María segir að áhersla sé lögð á sí- og endurmenntun starfsfólks og eigi það við um námskeið af öllu tagi sem fólki standi til boða að sækja, hvort heldur sem tengist leik eða starfi. Þá hafi starfsfólki sem tali annað tungumál verið boðið upp á íslenskunámskeið sem hafi gagnast því vel við að fóta sig í íslensku samfélagi. „Við höfum líka hvatt okkar sjómenn til að sækja sér menntun í vél- og skipsstjórn, sem hefur skilað góðum árangri. Við bjóðum upp á námssamninga sem auðvelda mörgum að auka við menntun sína. Það er okkur mikils virði að starfsfólk sé ánægt og líði vel í sinni vinnu og fái tækifæri til að efla sig í starfi. Ég hvet ungt fólk eindregið til að huga að sjávarútvegi, störfin í greininni eru svo margþætt auk þess sem þetta er háþróuð alþjóðleg atvinnugrein sem nýtir fullkomnustu tækni á flestum sviðum,“ segir Anna María Kristinsdóttir, mannauðsstjóri Samherja.