Skiptaverð á Samherjaskipum fyrir karfa yfir meðalverði

  • Meðalskiptaverð til sjómanna á karfa á íslenskum fiskmarkaði í fyrra á tímabilinu apríl til nóvember var 202 kr/kg  
  • Skiptaverð sjómanna á Samherjaskipinu Björgvin EA var á sama tíma 221 kr/kg
  • Fullyrðingar um undirverð, brot á kjarasamningum og gjaldeyrislögum eru fráleitar

Í fyrra voru seld um 5.300 tonn af karfa á íslenskum fiskmarkaði. Heildarverðmæti var rúmar 1.200 milljónir króna.  Björgvin EA veiddi 240 tonn af karfa í fyrra og var skiptaverð til sjómanna 221 kr/kg. Á sama tíma var meðalskiptaverð hins vegar 202 kr/kg.

Meðalskiptaverð til sjómanna sem lönduðu karfa  á fiskmarkað á Íslandi í fyrra, eftir að dregið hafði verið frá 4% markaðsgjald og umsýslugjald fiskmarkaðar var 219 kr/kg á árinu.  Meðalverðið var hæst fyrstu þrjá mánuði ársins en þá var skiptaverð tæplega 270 krónur, á þessu tímabili veiddu skip Samherja nánast engan karfa.  Meðalskiptaverð frá fyrsta apríl til loka nóvember var hins vegar 202 kr/kg en á því tímabili fóru 4.250 tonn um fiskmarkað á Íslandi.

 Á umræddu tímabili veiddi Björgvin EA 240 tonn af karfa sem flutt voru út til Þýskalands.  Skiptaverð sjómanna á Björgvin EA var á þessu tímabili 221 kr/kg.  Samherji keypti á sama tímabili 863 tonn af karfa á fiskmarkaði á Íslandi til að flytja út til vinnslu í Þýskalandi.  Með sömu útreikningum var skiptaverð til sjómanna skv. kjarasamningi úr þeim fiski sem allur fór um fiskmarkað 215 kr/kg. Hér eru bornir saman sambærilegir hlutir sem sýna að skiptaverð áhafnar Björgvins EA var hærra en skiptaverð úr þeim karfa sem fór yfir fiskmarkað á Íslandi á sama tíma.  Áður en fiskur er síðan seldur til Icefresh GmbH fellur til ýmis kostnaður vegna flutninga og umsýslu hér á landi og erlendis sem bætist ofan á söluverðið.  Allar ásakanir um brot á kjarasamningum  og hvað þá brot á gjaldeyrislögum eru því fráleitar.

Fullyrðingar um undirverð á fiski frá skipum Samherja til dótturfyrirtækis síns í Þýskalandi eiga því engan veginn við rök að styðjast.  Það skiptir öllu máli í þessari umræðu að menn séu að bera saman rétta hluti og þar er eðlilegast að styðjast við gögn af íslenskum fiskmarkaði.

 Samherji harmar þá mistúlkun gagna og misskilning sem virðist hafa átt sér stað og ítrekar að félagið vísar á bug alvarlegum aðdróttunum vegna þess sem hér hefur verið rakið.

Icefresh GmbH í Þýskalandi

Icefresh GmbH er dótturfyrirtæki Samherja, staðsett í Cuxhaven í Þýskalandi. Fyrirtækið var stofnað fyrir sex árum.  Samherji á 85% hlutafjár og stjórnendur eiga 15%. Icefresh GmbH er framleiðslufyrirtæki og selur einungis eigin afurðir. Ekki má rugla félaginu saman við íslenska sölufyrirtæki Samherja sem heitir Ice Fresh Seafood með aðsetur á Glerárgötu 30 og sér um sölu á fiskafurðum.

Velta Icefresh GmbH í fyrra var 40 milljónir evra eða rúmir sex milljarðar íslenskra króna.  61% af veltunni var vegna sölu á laxaafurðum sem félagið vinnur úr norskum laxi.  Heildar hráefni til vinnslunnar á árinu 2011 var 11.500 tonn m.v. óslægt hráefni.  Af því var karfi um 2.200 tonn, þar af komu 470 tonn af skipum Samherja hf.  Það magn er um 4,1% af því hráefni sem tekið var til vinnslu hjá Icefresh GmbH á árinu og 3,4% af veltu fyrirtækisins.  Hagnaður félagsins nam 1,3 milljónum evra eða um 200 milljónum króna.  Það voru 3,3% af veltu eftir að félagið hafði greitt 28,5% tekjuskatt í Þýskalandi.  Á árinu 2011 greiddi félagið 200 þús. evrur eða 30 milljónir króna í arð til hluthafa.  Samherji fékk 85% þeirrar upphæðar inn á  reikninga sína á Íslandi.  Á árinu 2010 var hagnaður félagsins 740 þús.  evrur. Af þessum tölum má vera augljóst að Samherji á Íslandi er ekki að flytja fjármuni úr landi til Icefresh GmbH og  fullyrðingar um slíkt eru fráleitar og úr öllum takti við raunveruleika.