Skipulagsbreytingar hjá landvinnslu Samherja

Föstudaginn 14. ágúst hófst vinnsla í nýrri fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Þetta eru mikil tímamót hjá landvinnslu Samherja enda bygging hússins, hönnun og uppsetning á öllum tækjabúnaði þar langstærsta fjárfesting í vinnslu sem Samherji hefur ráðist í frá upphafi. Samhliða opnun á nýju frystihúsi hefur verið ákveðið að gera breytingar á stjórnun landvinnslunnar til að styðja við opnun á nýja húsinu á Dalvík.


Kristjan_Sindri_GunnarssonKristján Sindri Gunnarsson

Kristján Sindri Gunnarsson færist af landvinnslusviði yfir á upplýsingatæknisvið Samherja. Hann mun hafa yfirumsjón með framleiðslukerfum fyrirtækisins og sinna þróun og þjónustu á þeim.
Kristján Sindri er sjávarútvegsfræðingur að mennt og hefur starfað í ÚA frá árinu 2015; fyrst sem verkstjóri að loknu námi og síðan vinnslustjóri vinnslunnar á Akureyri. Kristján hefur á undanförnum árum sinnt innleiðingu á nýrri tækni í landvinnslu ÚA sem núna er verið að taka upp á stærri skala í nýrri vinnslu á Dalvík. Kristján hefur afburða þekkingu á öllu er viðkemur nýjustu tækni í fiskvinnslu í dag og þekkir manna best vinnslukerfin frá bæði Völku og Marel. Með því að taka við nýju starfi á upplýsingatæknisviði mun Kristján Sindri styðja betur við báðar vinnslurnar í Eyjafirði og yfirfæra þá þekkingu á nýrri vinnslutækni sem til staðar er í ÚA yfir til Dalvíkur. Kristján er búsettur á Akureyri og á eina dóttur.


Jakob_AtlasonJakob Atlason

Jakob Atlason tekur við starfi vinnslustjóra á Akureyri af Kristjáni Sindra.
Jakob er menntaður úr Fiskvinnsluskólanum og hefur í rúm tuttugu ár verið verkstjóri á Dalvík. Í starfi sínu á Dalvík hefur Jakob tekið þátt í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á fiskivinnslu á Íslandi síðustu áratugi. Hann hefur m.a. unnið með markaðsfólki Samherja og sjómönnum að því að auka hlutfall ferskra afurða úr engu árið 2000 í um 50% í dag.
Jakob er búsettur á Akureyri og er giftur Höllu Björgu Davíðsdóttur. Jakob á 5 dætur.

 

 

Jón Sæmundsson

Jon_Saemundsson

Jón Sæmundsson tekur við starfi verkstjóra á Dalvík í stað Jakobs.
Jón er sjávarútvegsfræðingur að mennt og hefur undanfarin ár unnið sem verkstjóri í ÚA. Þegar Jón var ráðinn til ÚA var í upphafi gert ráð fyrir að hann myndi síðar flytjast til Dalvíkur þegar nýtt hús yrði opnað þar. Hann hefur í starfi sínu á Akureyri sérhæft sig í allri nýrri tækni í  fiskvinnslu og mun sú reynsla hans nýtast vel á nýjum vettvangi.
Jón er Dalvíkingur og búsettur þar. Hann er giftur Elíngunni Rut Sævarsdóttur og eiga þau 3 börn.