„Smíði skipanna var algjör bylting“

Systurskipin þrjú: Björg EA 7, Kaldbakur EA 1, Björgúlfur EA 312
Systurskipin þrjú: Björg EA 7, Kaldbakur EA 1, Björgúlfur EA 312

Fjögur ár eru síðan togari Samherja - Björg EA 7 - kom til Akureyrar í fyrsta sinn. Skipið var smíðað í Cemre-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og var síðasta skipið af fjórum systurskipum, Samherji lét smíða þrjú og FISK-Seafood á Sauðárkróki eitt.

Systurskip Bjargar eru Björgúlfur EA 312, Kaldbakur EA 1 og Drangey SK 2. Þessi skip vöktu strax athygli og umtal, ekki síst vegna þess að stefni þeirra þóttu framúrstefnuleg.

Þurrkurnar sjaldnar í gangi

„Þessi skip okkar hafa reynst mjög vel, þau fara vel með áhöfn, eru vel búin og eru á margan hátt hagkvæmari í rekstri en önnur fiskiskip. Ástæðan er fyrst og fremst skrokklagið og stefni skipanna sem kljúfa öldurnar vel. Sem dæmi get ég nefnt að þurrkurnar á brúargluggunum eru sjaldnar í gangi en gengur og gerist, einfaldlega vegna þess að skipin kljúfa öldurnar vel og halda þess vegna betur ferð í brælum, sem þýðir meðal annars minni olíunotkun. Hönnunin á skrokknum þótti nýlunda og talsvert frábrugðin eldri skipum íslenska flotans,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastóri útgerðarsviðs Samherja.

Fremur lítil vél, stór skrúfa

Slippurinn á Akureyri sá um að setja aðgerðar- og kælibúnað um borð í skipin, enda hefur Samherji í gegnum tíðina kappkostað að notast við íslenskar lausnir og framleiðslu.

Andveltitankur er í hverju skipi, slíkur tankur gerir það að verkum að verulega dregur úr veltingi, vinnuaðstæður eru betri og áhafnir hvílast betur á frívöktum. Aðalvélin þykir fremur lítil miðað við önnur íslensk fiskiskip en Kristján bendir á að skrúfan sé stór, afl vélarinnar nýtist því vel.

Algjör bylting

Guðmundur Freyr Guðmundsson hefur verið skipstjóri á Björgu frá upphafi. Þegar haft var samband við Guðmund var Björg að veiðum á Sléttugrunni.

„Já ég segi hiklaust að smíði þessara skipa hafi verið bylting, þökk sé góðri hönnun. Við finnum varla fyrir brælu, skipið er allt mýkra og þægilegra, munurinn er hreint út sagt ótrúlegur. Stöðugleiki hefur svo mikið að segja fyrir áhöfnina á allan hátt. Í upphafi var eitthvað verið að efast um að aðalvélin væri ekki nógu öflug en með stórri skrúfu og vel úthugsuðu skrokklagi er krafturinn nægur. Ég er toppánægður með þetta skip og þessi fjögur ár hafa verið fljót að líða,“ segir Guðmundur.

Vandað til verka

„Jú, jú, það voru eðlilega miklar vangaveltur hjá okkur við hönnun skipanna og það þarf líka ákveðinn kjark til þess að brjótast úr viðjum vanans. Skipin voru hönnuð af verkfræðistofunni Skipatækni og Bárði Hafsteinssyni sem hefur langa og mikla reynslu í þessum efnum. Hérna innandyra hjá Samherja er líka mikil þekking, sem kom sér vel í öllum undirbúningi. Eftir prófanir í módeltanki í Gdansk í Póllandi var ákveðið að breyta stefninu örlítið og aðeins var tekið úr skrokknum. Við sem sagt reyndum eftir bestu getu að vanda vel til allra þátta og niðurstaðan eftir þessi fjögur ár er jákvæð í alla staði. Svo er skemmtilegt að skoða skip fyrri alda og sjá skrokklagið, til dæmis Gauksstaðaskipið, sem er stærsta víkingaskip sem varðveist hefur frá víkingatímanum. Talið er að það skip hafi verið smíðað um 850, þannig að það er í raun og veru fátt nýtt undir sólinni, ef út í það er farið,“ segir Kristján Vilhelmsson.“

Tregt á miðunum

Eins og fyrr segir var Björg að veiðum á Sléttugrunni, þegar haft var samband við Guðmund skipstjóra. Og auðvitað var spurt um aflabrögð.

„Heyrðu, þetta er hálf dapurlegt hérna þessa dagana. Skilyrðin í sjónum eru hins vegar góð, þannig að við sjáum fram á bjartari tíð, vonandi sem fyrst. Ég hef enga trú á öðru.“