Starfsmanna- og fjölskylduhátíð STÚA haldin í sól og sumaryl

Um 200 manns skemmtu sér konunglega / myndir: Samherji.is og STÚA
Um 200 manns skemmtu sér konunglega / myndir: Samherji.is og STÚA

Starfsmanna- og fjölskyldudagur STÚA – Starfsmannafélags Útgerðarfélags Akureyringa – var haldinn á lóð ÚA sl. laugardag í blíðskaparveðri. Óskar Ægir Benediktsson formaður félagsins segir að STÚA stefni að því að halda slíka hátíð á hverju ári, þó ekki endilega alltaf með sama fyrirkomulagi. Í ár var þessi tímasetning fyrir valinu, þar sem flestir eru að snúa til starfa eftir sumarleyfi.

Allir fundu eitthvað við sitt hæfi

„Hátíðin í ár heppnaðist afskaplega vel, enda verður allt auðveldara og skemmtilegra þegar veðrið var svona gott. Sólin skein og hitamælirinn fór yfir tuttugu stig. Dagsetning hátíðarinnar var ákveðin fyrir löngu síðan og auðvitað vona allir að veðrið verði sem best, þannig að ekki þurfi að færa dagskrána inn í hús. Þátttakan hefur alltaf verið góð, enda vandað til verka í öllum undirbúningi varðandi mat og skemmtiatriði. Þessi skemmtun var öllum að kostnaðarlausu og allir fundu eitthvað við sitt hæfi, ég heyri ekki annað en að fólk hafi skemmt sér konunglega.“

Aukin kynni og samheldni

„ Já, við getum sagt að þessi viðburður sé í aðra röndina hugsaður til að hrista hópinn enn betur saman eftir sumarfrí. Starfsmannafélagið er nokkuð öflugt, enda styður Samherji vel við bakið á starfseminni og við erum með ýmislegt á prjónunum í vetur. Tilgangur starfsmannafélagsins er að stuðla að auknum kynnum og samheldni félagsmanna og nálgast það markmið meðal annars með því að standa að félagslífi af ýmsum toga. Ég held að hátíðin um helgina hafi tikkað í flest hugsanleg box, við erum alsæl með helgina.“

Margt á döfinni

„Við erum með í undirbúningi a.m.k. fjóra stóra viðburði það sem eftir lifir árs: dagsferð í Mývatnssveit í september, taílenskt-kvöld í október, litlu-jólin í nóvember og væntanlega endurtökum við leikinn frá í fyrra og bjóðum jólasveinunum að hitta félagsmenn og börn þeirra á jólatrésskemmtun,,"  segir Óskar Ægi Benediktsson formaður Starfsmannafélags Útgerðarfélags Akureyringa. 

Meðfylgjandi eru myndir frá starfsmanna- og fjölskyldudegi STÚA