Stórt skref í átt að uppbyggingu nýrrar landeldisstöðvar Samherja fiskeldis

Tölvugerð mynd af Eldisgarðinum
Tölvugerð mynd af Eldisgarðinum

Skipulagsstofnun hefur skilað áliti við umhverfismatsskýrslu Samherja Fiskeldis ehf. varðandi uppbyggingu landeldisstöðvar félagsins í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi. Álitið er grundvöllur fyrir frekari leyfisveitingar tengdum framkvæmdinni og rekstri eldisstöðvarinnar, sem byggð verður upp í þremur áföngum. Verkefnið hefur fengið vinnuheitið Eldisgarður.

Í fyrsta áfanga er ráðgert að framleiðslugetan verði 10 þúsund tonn af laxi á ári. Að lokinni uppbyggingu annars áfanga verður framleiðslugetan 20 þúsund tonn og 40 þúsund tonn eftir þriðja og síðasta áfanga.

Sjótöku verður einnig áfangaskipt en í fullbyggðri stöð áætlar félagið að nota að hámarki 30.000 l/s af jarðsjó, um 50 l/sek af ferskvatni og um 3.200 l/s af ylsjó frá Reykjanesvirkjun sem í dag rennur að hluta ónýttur til sjávar. HS Orka afhendir félaginu þessa 50l/sek sem notaðir verða af ferskvatni.

Rétt er að árétta að allt annað vatn sem notað verður við fiskeldið er saltur sjór sem dælt verður úr fjörukambinum neðan við Eldisgarð.

Skipulagsstofnun telur veigamestu umhverfisáhrifin varða grunnvatn og jarðmyndanir. Mat stofnunarinnar á mögulegum umhverfisáhrifum er sambærilegt við niðurstöður umhverfismatsskýrslu Samherja fiskeldis.

Í álitinu er tekið undir mikilvægi þess að áfangaskipta uppbyggingu Eldisgarðsins eins og Samherji fiskeldi leggur upp með til að tryggja sem nákvæmastar upplýsingar um umhverfisáhrif á hverjum tíma.

Stórt jákvætt skref

Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis segir að vinna við matsáætlun og umhverfismatsskýrsluna hafi tekið þrjú ár og leitast hafi verið við að svara með skýrum og afgerandi hætti athugasemdum almennings og umsagnaraðila. Í umhverfismatsskýrslunni komi einnig fram fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir til að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

„Umhverfismatið og samþykkt skipulag eru mikilvægir áfangar fyrir okkur til að byggja nýja og fullkomna landeldisstöð við Reykjanesvirkjun. Álitið er jákvætt og einnig ánægjulegt að fá hrós frá yfirvöldum fyrir vandaða og vel unna skýrslu.

Við stefnum á framleiðslu á laxi þar sem sjódæling verður lykilþáttur og það er sjálfsögð krafa að við vöktum áhrif sjótökunnar á umhverfið eins og við leggjum upp með. Eina leiðin til að kortleggja áhrifin með meiri nákvæmni en við höfum þegar gert er að vakta með ábyrgum hætti áhrif sjódælingarinnar, sem er megin ástæða þess að framkvæmdin verður áfangaskipt.“

Óvissu eytt með vöktun

Samherji fiskeldi verður í samstarfi við HS Orku um vöktun á áhrifum sjótökunnar. HS Orka vaktar í dag vatnstökusvæðið í kringum Reykjanesvirkjun og möguleg áhrifasvæði. Til að auka nákvæmni og styrkja vöktunina mun Samherji fiskeldi bora rannsóknarholur á svæðinu í samræmi við tillögur Magnúsar Tuma Guðmundssonar prófessors í jarðeðlisfræði. Vöktun verður því orðin mun öflugri en hún er í dag áður en rekstur fyrsta áfanga hefst og grunnvatnsstaða svæðisins því vel kortlögð. Það gefur möguleika á betri mótvægisaðgerðum verði þörf á því. Sérstök áhersla verður lögð á vöktun við Sýrfell sem er móbergsmyndun um 2,5km norðaustur af svæðinu en þar eru ferskvatnslindir HS Orku staðsettar. Tilgangur þeirrar vöktunar er að eyða óvissunni um tengsl sjótökusvæðis Samherja fiskeldis við grunnvatn á svæðinu.

Niðurstöður vöktunarmælinga verða færðar jafn óðum inn í grunnvatnslíkan sem unnið var af ÍSOR til sannprófunar. Sýni vöktunin breytingar á niðurdrætti eða seltu sem ekki eru í samræmi við líkanareikninga, verður staðan metin og tekin ákvörðun um mögulegar breytingar á vinnslu til að draga úr áhrifum.

Vandað til verka

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur þegar afgreitt tillögu um breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og breytingu á deiliskipulagi á Reykjanesi, sem fjalla um Eldisgarðinn og bæjarráð hefur samþykkt þær skipulagsbreytingar.

„Nú þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir er kominn grundvöllur fyrir frekari leyfisveitingum. Tilgangurinn með umhverfismatinu er að benda á þá hluti sem hugsanlega verða fyrir hve mestum áhrifum af framkvæmdum og setja fram leiðbeiningar um hvað og hvernig skuli lágmarka slík áhrif. Við höfum lagt mikinn metnað í allan undirbúning þessarar framkvæmdar og álitið staðfestir að vandað hefur verið til verka. Við höfðum þegar lagt fram okkar hugmyndir varðandi vöktun vegna sjótöku og annarra atriða í skýrslunni sem ríma vel við álit Skipulagstofnunar, það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur við áframhaldandi hönnun og uppbyggingu á Reykjanesi,“ segir Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis ehf.