„Tæknivædd vinnsla kallar á sérhæft starfsfólk“

Hólmfríður Sigurðardóttir flokksstjóri pökkunar ferskra afurða / myndir samherji.is
Hólmfríður Sigurðardóttir flokksstjóri pökkunar ferskra afurða / myndir samherji.is

Hólmfríður Sigurðardóttir flokksstjóri pökkunar ferskra afurða í fiskvinnslu Samherja á Dalvík hefur starfað lengi í sjávarútvegi. Hún segir að örar tækiframfarir kalli á sérhæft starfsfólk.

„Ég er að detta í 26 árin hjá Samherja, sem segir okkur líklega að mér líkar vistin vel. Það hafa orðið gríðarlegar framfarir í vinnslu fiskafurða á þessum árum og starfsemin hérna á Dalvík er gott dæmi um innleiðingu vél- og tölvubúnaðar sem vakið hefur heimsathygli. Aðbúnaður starfsfólks er líka til fyrirmyndar enda er starfsaldur hérna nokkuð hár, sem er ágætis mælikvarði á ánægju í starfi. Það er sem sagt ekki bara ég sem hef unnið hérna mjög lengi,“ segir Hólmfríður.

Flug og skip

Drjúgur hluti framleiðslunnar er seldur ferskur til Evrópu. Hólmfríður segir að á hverjum degi fari flutningabílar frá Dalvík með afurðir til útflutnings, annaðhvort í skip eða flug.

„Fiskur sem unninn er hérna í dag verður kominn til Keflavíkur í nótt, ef er sendur út með flugi.  Á morgun eða hinn verður sendingin svo komin til kaupandans, til dæmis í Frakklandi. Ef fiskurinn er sendur með skipi tekur ferðalagið kannski fjóra sólarhringa.

Róbótar og sérhæft starfsfólk

Hólmfríður segir að verðmætustu hlutar flakanna séu fluttir út ferskir, svo sem hnakkar.

„Þegar flökin hafa verið skorin með nákvæmum hætti í vatnsskurðarvélunum, fara bitarnir eftir færiböndum til áframhaldandi vinnslu, sem getur verið nokkuð mismunandi. Þannig fara hnakkarnir í frauðplastkassa sem eru merktir viðkomandi kaupanda. Ís er settur í hvern kassa, þannig að hráefnið haldist ferskt allt ferðalagið. Búnaðurinn veit nákvæmlega hvert í heiminum hvert kassi á að fara. Róbótar sjá í lokin um að safna saman kössunum, raða þeim á bretti og afhenda sjálfkeyrandi lyfturum sem koma þeim á réttan stað til útflutnings. Þetta hljómar kannski ósköp einfalt en allir þessir ferlar kalla á sérhæft starfsfólk sem sér til þess að allt virki eins og lagt er upp með. Stöðugt gæðaeftirlit er líka stór þáttur í framleiðslunni því markmiðið er alltaf að afhenda hágæða vöru á umsömdum tíma.“

Allt klárt í upphafi hvers dags

„Ég mæti gjarnan tveimur tímum áður en vinnsla hefst og geri klárt fyrir verkefni dagsins. Oft erum við að framleiða fyrir nokkra mismunandi kaupendur á sama tíma og þess vegna þurfa allir vinnsluferlar að liggja fyrir í upphafi hvers dags. Skipulag vinnslunnar getur verið nokkuð mismunandi eftir dögum og þess vegna þarf að stilla vélbúnaðinn þannig að hann raði afurðunum inn á mismunandi brautir í framleiðsluferlinu. Á árum áður var oftast unnið fyrir aðeins einn kaupanda í einu en núna má segja að það séu óskir margra viðskiptavina sem stýra því sem við gerum frá dagi til dags.“

Vel þjálfað starfsfólk lykillinn að góðum árangri

„Já, þetta er heilmikil teymisvinna, allir þurfa að vera á sömu blaðsíðunni svo að allt gangi upp. Þess vegna er mikilvægt að hafa vel þjálfað starfsfólk. Hjá mér er alltaf tilhlökkun að mæta í vinnuna, sjá hvaða pantanir liggja fyrir og undirbúa pökkunina samkvæmt þeim. Tæknibreytingar eru líka ansi örar, núna erum við til dæmis nýbúin að taka í notkun enn einn róbótinn á pökkunarlínunni. Tæknivædd vinnsla eins og hérna á Dalvík kallar á sérhæft starfsfólk og hérna starfar fólk sem svo sannarlega leggur metnað sinn í að framleiða hágæða vöru. Meðal annars þess vegna er gaman í vinnunni,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir flokksstjóri pökkunar á ferskum afurðum á Dalvík.