Takk fyrir komuna

Stöðugur straumur fólks var í fiskvinnsluhúsið allan tímann sem opið var
Stöðugur straumur fólks var í fiskvinnsluhúsið allan tímann sem opið var

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli var haldin hátíðaleg á Dalvík sl. laugardag, þar sem sjávarútvegur var í öndvegi.


Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var opið almenningi og er áætlað að hátt í 7000 manns hafi skoðað húsið, sem hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir framúrskarandi tæknilausnir og góðan aðbúnað starfsfólks.


Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að afar ánægjulegt hafi verið að sýna húsið á þessum degi.


"Stemningin á Dalvík er einstök á Fiskideginum mikla, samstaða íbúanna er mikil og hlýhugur og gleði allsráðandi. Í mínum huga undirstrikar hátíðin með skýrum hætti að Dalvíkingar eru stoltir af því að sjávarútvegur er helsta atvinnugreinin, enda eru þeir sjómenn og fiskvinnslufólk í fremstu röð. Samherji er stór vinnuveitandi í sveitarfélaginu og við bjóðum gestum hátíðarinnar að smakka afurðir okkar með mikilli ánægju og stolti.
Ég þakka þeim sem sjá um framkvæmd hátíðarinnar kærlega fyrir einstaklega farsæla samvinnu í gegnum árin en fyrst og fremst er Fiskidagurinn mikli risastórt heimboð íbúanna og þökkum við Dalvíkingum fyrir óviðjafnanlegar móttökur."