Nýi dælubúnaðurinn "algjör bylting“

Með nýja dælibúnaðinum verður vinnslan hagkvæmari
Með nýja dælibúnaðinum verður vinnslan hagkvæmari

Um 6.500 tonn af fiskhausum og hryggjum falla til á ári í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík. Til þessa hefur afurðunum verðið ekið í körum til þurrkunar en með nýjum búnaði er því nú dælt eftir rörum milli húsanna. Lagnakerfið er um 300 metra langt. 

Afgangsvatn frá kælikerfi fiskvinnsuhússins er notað við dælinguna. Búnaðurinn var prufukeyrður í síðustu viku og segir Gunnar Aðalbjörnsson deildarstjóri þurrkunar að hann reynist vel.

Umhverfisvænt

„Við erum að þurrka á bilinu 140 til 150 tonn á viku, sem þýddi að lyftarar voru að keyra til okkar um eitthundað körum á dag í um tuttugu ferðum. Miðað við fjarlægðina milli húsanna óku lyftararnir daglega um fimmtán kílómetra, þannig að þetta dælukerfi er jákvætt skref í umhverfislegu tilliti, auk þess sem hráefnið er enn ferskara og betra en áður.“

Góður og hnitmiðaður undirbúningur

Þegar nýtt fiskvinnsluhús var byggt á Dalvík var gert ráð fyrir slíku dælukerfi. Vatn frá frystikerfi fiskvinnsluhússins er notað við dælinguna. „Þetta er algjör bylting, stýringin verður mun auðveldari og hagkvæmari á allan hátt, auk þess sem kolefnissporið minnkar. Við höfum aðeins verið með kerfið í notkun í nokkra daga og þetta lofar afskaplega góðu, engin teljandi vandamál hafa komið upp."

Vatnið vel nýtt

Hausaþurrkun Samherja á Dalvík er stærsti notandinn á heitu vatni í sveitarfélaginu, notar um 40 tonn á klukkustund. Gunnar segir að heita vatnið sé vel nýtt. „Já, það er ekki bara að við séum að nota afgangsvatn frá kælikerfi fiskvinnslunnar. Heita vatnið sem við tökum inn, fer síðan aftur frá okkur og hitar upp gangstéttar og bílastæði á athafnasvæði Samherja. Allt miðast þetta við að nýta vatnið eins og kostur er,“ segir Gunnar Aðalbjörnsson.