Hátt í þrjátíu ungmenni eru ráðin til starfa í sumar í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík, til að leysa af fastráðið starfsfólk vegna sumarleyfa. Hlutfall sumarstarfsfólks er því nokkuð hátt þessar vikurnar.
„ Það er alltaf töluverð ásókn í sumarstörf, því miður getum við ekki orðið við öllum umsóknum og í mörgum tilvikum er um að ræða fólk sem hefur verið hjá okkur áður og þekkir því vel til starfseminnar. Áður en þessir nýju starfsmenn byrja eru þeir fræddir um helstu verklagsreglur, svo sem öryggismál. Við reynum að vanda til verka varðandi þetta, enda um að ræða fólk sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Krakkarnir eru hörku duglegir og setja skemmtilegan svip á starfsemina,“ segir Jón Sæmundsson framleiðslustjóri Samherja á Dalvík.
Besta sumarvinnan á Dalvík
Sóldís Lilja Jónsdóttir er 15 ára og hefur ekki áður starfað í fiskvinnslu.
Pabbi minn er sjómaður, hann sótti um fyrir mig og svarið var jákvætt. Vinnan getur verið krefjandi en ekkert voðalega erfið, þannig lagað. Vinnuaðstaðan er góð og svo þekki ég marga sem vinna hérna, þannig að þetta er bara fínt. Mötuneytið er flott, rosalega góður matur hérna. Ég held að ekki sé hægt að fá betri vinnu en þetta, maður kemst örugglega ekki í launahærri vinnu,“ segir Sóldís Lilja.
Frábær matur
Írena Rut Jónsdóttir er 16 ára. Hún er á sínu öðru starfsári, byrjaði í fyrrasumar.
„ Já, já, við þurfum að vakna snemma á morgnana en það er bara allt í þessu fína. Mórallinn er flottur og maður þekkir flesta, sem er mikill kostur. Við erum ekki búnar að fá útborgað en ég veit svona nokkurn veginn hver launin eru, þau gerast ekki betri hjá krökkum á okkar aldri. Maturinn hérna er líka frábær,“ segir Írena.
Allt í lagi að vakna snemma
Michal Oleszko er 18 ára og hefur undanfarin sumur starfað hjá Samherja á Dalvík.
„Já, þetta er mjög góð sumarvinna. Mikið að gera og störfin eru fjölbreytt, maður er ekki alltaf í því sama. Í dag mætti ég klukkan sex og þurfti því að vakna klukkan fimm, en það er allt í þessu fína. Maður fer bara fyrr að sofa á kvöldin. Þótt fyrstu launin séu ekki komin, veit ég að þau eru mjög góð. Hérna virðist vera vel hugsað um alla hluti og mötuneytið er ógeðslega gott,“ segir Michol.
Vissi lítið um fiskvinnslu
Örn Heiðar Lárusson er 16 ára og hefur ekki áður starfað í fiski.
„Ég sótti bara um á netinu og fékk svar eftir nokkra daga og hérna er ég. Ég vissi í raun óskaplega lítið um vinnuna en ættingjar mínir hafa frætt mig um ýmsa hluti. Í dag er ég í pökkun, sem er alveg ágætt. Ég finn voðalega lítið fyrir því að þurfa að vakna snemma, þetta er bara eins og í skólanum á veturna. Við fengum fræðslu í upphafi og svo er eldra fólkið alltaf tilbúið til að sýna manni eitthvað. Þetta er fínasta vinna og það er líka rosalega góður kostur að hafa mötuneyti á staðnum. Það eru ekki allir sem hafa svoleiðis,“ segir Örn Heiðar.