“Þetta reddast” leiðin sniðgengin á Dalvík

Heimsfaraldurinn hafði eðlilega umtalsverð áhrif á starfsemi hátækni fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík, sem formlega tók til starfa fyrir rúmu ári síðan. Með nýjum búnaði og gerbreyttri tækni komu engir utanaðkomandi sérfræðingar í húsið mánuðum saman. Áskoranir  starfsfólksins voru því margar en samt sem áður var slegið framleiðslumet á síðasta fiskveiðiári. Yfirverkstjórinn segir að góður undirbúningur hafi skipt sköpum.

Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri segir starfsfólki hússins hafi verið skipt upp í fimm aðskilda hópa vegna Covid-19. Með slíku fyrirkomulagi sé hægt að koma í veg fyrir að loka þurfi húsinu, greinist smit í húsinu.

Starfsfólkið fékk frið, þökk sé Covid-19

“Já, auðvitað gekk á ýmsu, það segir sig sjálft. Vegna ástandsins vorum við í stöðugum tölvusamskiptum við framleiðendur tækjanna og hönnuði búnaðarins. Vinnslan gekk vel frá fyrsta degi og við segjum að góður og hnitmiðaður undirbúningur á öllum sviðum hafi skipt sköpum. Annars hefði þetta ekki verið gerlegt, svo mikið er víst. Þegar maður lítur til baka er líka hægt að segja að með því að loka húsinu algjörlega hafi starfsfólkið fengið frið til þess að taka þetta fullkomnasta fiskvinnsluhús heimsins í hvítfiski í notkun. Það eru gríðarlega margir sem vilja skoða þetta magnaða hús.”

Framleiðslumet slegið í miðjum faraldri

Um 17 þúsund tonn voru unnin í húsinu á síðasta fiskveiðiári, sem er talsvert meira magn en í gamla fiskvinnsluhúsinu á Dalvík.

“Þetta gekk ótrúlega vel, miðað við að allt sé nýtt og um margt framandi. Sem betur fer fórum við ekki þessa klassísku íslensku leið, “þetta reddast.” Undirbúningurinn bjargaði okkur, það er alveg klárt. Auðvitað hefði maður viljað sjá ýmislegt ganga hraðar fyrir sig en við erum á góðum stað í dag og svo hefur reyndar verið frá upphafi, þrátt fyrir heimsfaraldurinn.”

Halda að veitingastaður sé í húsinu

Já, húsið vekur athygli erlendra ferðamanna. Sem dæmi get ég sagt frá því að fyrir hefur komið að sumir ferðamenn halda að matsalurinn sé veitingastaður og vilja fá að borða. Þeir verða undrandi þegar þeim er tjáð að þetta sé fiskvinnsluhús og hérna í glerbyggingunni sé mötuneyti starfsfólksins en ekki almennur veitingastaður. Þetta segir manni ákveðna sögu, sem er bara ánægjulegt og skemmtilegt,” segir Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri.