Þung sókn erlendra skipa í bláuggatúnfisk suður af Íslandi

Skipin frá Japan og Suður-Kóreu eru flest um 50 metra löng
Skipin frá Japan og Suður-Kóreu eru flest um 50 metra löng

Rúmlega þrjátíu skip, flest frá Japan og Suður-Kóreu, hafa undanfarnar vikur stundað bláuggatúnfiskveiðar í Norður-Atlantshafi, rúmlega 200 sjómílur suður af Vestmannaeyjum. Skipin gætu verið nærri fimmtíu sólarhringa að sigla af veiðislóð til heimahafnar. Veiðin er sögð góð. Kvóti Íslands var 180 tonn í fyrra.

Skipin voru þrjú í byrjun september en upp úr miðjum mánuðinum fór þeim að fjölga mikið og voru flest 34 á 55 daga tímabili. Þau eru svo að segja öll með sama yfirbragði, stærð og vélarafli. Lengdin er 48-52 metrar og breiddin 9 – 10 metrar og um 500 tonn.

Vélarnar eru á bilinu 700 til 1200 kw. Þau eru byggð á árinum 1990 til 2019 og hafa á þessum árum tekið sáralitlum breytingum, aflinn er frystur um borð. Auðvelt er að fylgjast með skipunum og nálgast upplýsingar um þau á stafrænum upplýsingaveitum.

 Mikils virði og víðförull

Bláuggatúnfiskurinn breiðir úr sér um svo að segja hálfan hnöttinn og þess vegna stunda margar þjóðir veiðar úr stofninum. Eftir miklu er að slægjast, enda kílóverðið líklega hið hæsta af öllum fisktegundum. Hrygningasvæði bláuggatúnfisksins, sem er í Atlantshafi, er í Miðjarðarhafi og Karíbahafi en þaðan syndir fiskurinn vítt og breitt um Atlantshafið, meðal annars suður af Íslandi og stundum upp að nyrsta odda Noregs.

Skipin sömuleiðis víðförul

Skipin sem hafa stundað veiðar við mörk íslensku efnahagslögsögunnar eru víðförul, líkt og sjálfur bláuggatúnfiskurinn 

Frá veiðislóð í Kyrrahafi eru 9500 sjómílur, sem jafngilda 36 sólarhringa siglingu á veiðislóð suður af Íslandi. Til baka í heimahöfn skipanna gætu verið að lágmarki 12.200 sjómílur eða um 47 sólarhringa sigling.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hversu gríðarlega langt ferðalag liggur að baki þess að koma skipunum frá Japan og Suður-Kóeru eða veiðislóð í Kyrrahafi að 200 sjómílna efnahagslögsögu Íslands, þar sem þau byrja árvissar veiðar á bláuggatúnfiski. Það er því greinilega eftir miklu er að slægjast.

„Catching is good at this moment“

Samherji hafði samband við japanskan aðila sem þekkir til þessara veiða. Hann staðfesti að veiðarnar gangi vel.

„Top season of Bluefin Tuna is from November to December in The North Atlantic. There are about 55-60 long liners in The North Atlantic. Catching is good at this moment,“ segir í svarinu til Samherja.

Hlýir straumar höfðu áhrif

Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi segir að bláuggatúnfiskurinn sé afar tignarlegur fiskur, stór og öflugur. „Þegar hlýir straumar tóku að eflast um aldamótin verða þessara fiska vart við og við í íslenskri lögsögu. Á þeim tíma átti Hafrannsóknarstofnun í samstarfi við japanska veiðiflotann um þekkingaröflun. Til þess að nýta stofninn í verðmætar afurðir, þarf sérstaklega útbúin skip,“ segir Kristján.

 

180 tonna kvóti í fyrra

Samkvæmt reglugerð sem Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gaf út 11. september 2020 um veiðar íslenskra skipa á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski var heimilt að veiða alls 180 tonn, miðað við afla upp úr sjó. Ráðuneytið hefur ekki gefið út aflaheimildir vegna árins 2021.