Þungamiðja bleikjuframleiðslu á heimsvísu er í Sandgerði

Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um 3.800 tonn árlega en það er tæpur helmingur allrar eldisbleikju sem er framleidd í heiminum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fróðlegri úttekt um bleikjuvinnslu Samherja í Sandgerði sem birtist í tímaritinu Sóknarfæri.

Fiskeldi skapar þjóðarbúinu miklar tekjur en útflutningsverðmæti eldisafurða var um 25 milljarðar króna á síðasta ári. Um er að ræða 90% aukningu frá árinu á undan og hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei verið meira. Á árinu 2018 störfuðu um 500 manns við fiskeldi og launatekjurnar í greininni voru um 3,5 milljarðar króna. Það er því fyrir löngu orðið ljóst að fiskeldið er komið til að vera í íslensku atvinnulífi.

Fiskeldi Samherja kemur að öllum stigum fiskeldis og vinnslu, allt frá hrognum til neytenda. Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja, rekur vinnslustöð í Sandgerði, eina klakfiskastöð að Sigtúnum í Öxarfirði, eina klakstöð fyrir hrogn að Núpum í Ölfusi, þrjár seiðastöðvar og tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju, aðra á Stað við Grindavík og hina að Vatnsleysuströnd. Einnig rekur fyrirtækið eina strandeldistöð fyrir lax að Núpsmýri í Öxarfirði. Allt eru þetta landeldisstöðvar sem nýta jarðvarma og notast við borholuvatn, ýmist ferskt eða ísalt vatn, við framleiðslu á hágæða eldisfiski.

Samherji_Fiskeldi_Sandgerdi

Í tímaritinu Sóknarfæri, sem kom út í síðasta mánuði, er umfjöllun um bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði en þar er rætt við Bergþóru Gísladóttur vinnslustjóra. Bleikjuvinnslan er afar tæknivædd en þar eru unnin 16-18 tonn af bleikju á dag. Að sögn Bergþóru er bleikjan alin á eldisstöðvum á Stað við Grindavík og Vatnsleysuströnd upp í um 1.400 grömm og þá er hún tilbúin til slátrunar. Bleikjan er síðan flutt lifandi í tankbílum frá eldisstöðvunum og er vinnslustöðin í Sandgerði alltaf með einn farm inni í húsi yfir nótt svo hægt sé að hefja slátrun klukkan sex á morgnana. (sjá nánar í Kynningarmyndbandi Samherja Fiskeldis)

Um 20 manns starfa í vinnslunni sem var flutt frá Grindavík til Sandgerðis fyrir um tveimur árum. Segja má að vinnsla Samherja fiskeldis í Sandgerði sé ákveðin þungamiðja í bleikjuframleiðslu á heimsvísu í ljósi þess hversu stór hluti framleiðslunnar fer fram í verksmiðjunni.

Bleikjan er ýmist seld fersk úr landi eða lausfryst og er pökkuð á ýmsa vegu, allt eftir þörfum og eftirspurn markaðarins hverju sinni. Stærstur hluti framleiðslunnar er seldur til Bandaríkjanna en bleikjan er einnig seld til Evrópu og má þar nefna Finnland, Svíþjóð og Þýskaland.

Nálgast má umfjöllun um bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði í tímaritinu Sóknarfæri í viðhengi hér fyrir neðan.

Sóknarfæri 1.tbl 2020 - Ferskleiki og gæði í fyrirrúmi

Samherji_fiskeldi