„Til þess að vera virkur í samfélaginu er nauðsynlegt að tala og skilja íslensku“

Marcin Blachnio/myndir Sindri Swan/samherji.is
Marcin Blachnio/myndir Sindri Swan/samherji.is

Pólverjinn Marcin Blachnio hefur búið og starfað á Íslandi í sautján ár, þar af í fjórtán ár hjá Samherja fiskeldi. Fyrst í Grindavík og síðustu árin í Sandgerði, þar sem bleikja er unnin. Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í Sandgerði en eiginkona hans, Marzanna Danilczuk , starfar einnig hjá Samherja fiskeldi.

Líður vel í Sandgerði

„Fyrstu þrjú árin var ég í byggingarvinnu á höfuðborgarsvæðinu en síðan lá leiðin til Grindavíkur til að starfa hjá Íslandslaxi, sem nú heitir Samherji fiskeldi. Þegar ákveðið var að færa vinnsluna til Sandgerðis ákvað fjölskyldan að fylgja með og hérna höfum við komið okkur ágætlega fyrir, meðal annars keypt fasteign. Þetta sýnir að fjölskyldunni líður vel hérna, enda hefur okkur verið vel tekið.“

Fór á íslenskunámskeið

Í vinnsluhúsi Samherja fiskeldis í Sandgerði var tekið á móti hátt í fjögur þúsund tonnum af bleikju á síðasta ári, megin hluti framleiðslunnar er fluttur út ferskur, aðallega til Bandaríkjanna. Marcin vinnur meðal annars á lyftara, þannig að hann er í samskiptum við flesta starfsmenn vinnsluhússins.

„Já, já, það er alltaf nóg að gera. Ég tala bæði íslensku og pólsku í vinnunni, hérna eru nokkrir Pólverjar og við tölum gjarnan saman á móðurmálinu. Ég skil og tala íslenskuna betur með hverju árinu sem líður og hef farið á íslenskunámskeið sem er nauðsynlegt að gera. Til þess að geta orðið virkur í samfélaginu er um að gera að öðlast færni í íslenskunni, hið sama gildir um vinnustaðinn. Íslenskan er svolítið erfið, en þetta kemur allt saman. Ég hvet alla útlendinga sem starfa á Íslandi til að læra íslensku, ætli þeir sér að búa og starfa á landinu.“

Allt unnið í trúnaði

Marcin er trúnaðarmaður starfsfólks í vinnsluhúsi Samherja fiskeldis sem er í Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis.

„Ég er þakklátur fyrir þetta traust. Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum og gætir þess meðal annars að farið sé eftir kjarasamningum. Samband mitt við Bergþóru Gísladóttur framleiðslustjóra er afskaplega gott og við höfum alltaf leyst þau mál sem upp hafa komið. Ef ég er ekki alveg viss um eitthvað í kjarasamningum, get ég alltaf beðið um aðstoð frá stéttarfélaginu og öll mál sem trúnaðarmaðurinn sinnir eru unnin í trúnaði, sem er mikilvægt. Hérna eru margir starfsmenn með langan starfsaldur, sem sýnir að vinnustaðurinn er góður.“

Íslendingur

„Nei, við erum ekkert á förum, enda líður okkur afskaplega vel hérna í Sandgerði. Ég er ekki kominn með íslenskan ríkisborgararétt en tel mig engu að síður vera Íslending eftir að hafa búið svona lengi hérna,“ segir Marcin Blachnio lyftaramaður hjá Samherja fiskeldi í Sandgerði.