Tímamótalöndun Baldvins frá Cuxhaven á Dalvík

Baldvin NC á Dalvík
Baldvin NC á Dalvík

Ferskur afli úr skipi frá Evrópusambandslandi unninn á Dalvík

Togarinn Baldvin frá Cuxhaven kom til Dalvíkur í gærkvöld og landaði þar um 200 tonnum af ferskum bolfiski, aðallega þorski. Byrjað var að vinna aflann kl. fjögur aðfaranótt pálmasunnudags í landvinnslu Samherja á Dalvík og fer hluti af afurðunum með flugi á Frakklandsmarkað í nótt. Fiskurinn var veiddur í Barentshafi, úr veiðiheimildum Evrópusambandsins. Löndunin markar ákveðin tímamót því þetta er í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi sem ferskum afla úr skipi frá Evrópusambandslandi er landað til vinnslu á Íslandi.

Stefnt er að því að Baldvin landi ferskum afla úr Barentshafi oftar á næstunni og verður hann allur unninn í landvinnslu Samherja. Baldvin er í eigu DFFU, dótturfélags Samherja í Þýskalandi.

Leikskólinn opnaður á sunnudegi

Í samstarfi við bæjaryfirvöld í Dalvíkurbyggð var leikskólinn þar, Krílakot, opnaður í dag, til að gera starfsfólki Samherja sem eiga börn þar kleift að mæta til vinnu á sunnudegi. Samherji greiðir kostnaðinn sem af því hlýst. Hafnarsjóður Dalvíkurbyggðar tekur einnig þátt í verkefninu með því að veita afslátt af hafnargjöldum meðan á þessari tilraun stendur.

Innflutningur á hráefni

Löndun Baldvins á ísfiski er ekki eini innflutningur á hráefni í vinnslu Samherja hér á landi því undanfarin misseri hafa um 20 manns unnið við reykingu á ýsu hjá Reykfiski á Húsavík en það fyrirtæki er í eigu Samherja. Hráefnið fyrir þá vinnslu kemur allt af erlendum skipum Samherja.

 “Það er mjög ánægjuleg nýbreytni að fiskur úr kvóta Evrópusambandsins sé unninn hér á landi. Verðmætustu afurðirnar fara með flugi til Frakklands í nótt enda er mikil eftirspurn eftir fiski í flestum Evrópulöndum nú í dymbilvikunni,” segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. sunnudaginn 17. apríl 2011.

Nánari upplýsingar gefur Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja,í síma 660 9062.